Hrafnarnir hafa sótt í smiðju -Hómers Simpson að undanförnu þegar kemur að sviptingum á íslenskum bankamarkaði.
Þannig var augljóst að stjórn Kviku hefði haft ráðleggingar um að hafna ávallt fyrsta tilboði þegar bankinn sagði nei við samrunaviðræðum við Arion banka annars vegar og Íslandsbanka hins vegar. Nú nokkrum vikum síðar hefur stjórn Kviku ákveðið að rugla saman reytum við Arion og eftir sitja Jón Guðni Ómarsson bankastjóri og hans fólk í Íslandsbanka með sárt ennið.

Jón Guðni getur eigi að síður sótt innblástur til Hómers, sem sagði eitt sinn: „Krakkar, þið reynduð ykkar besta – og ykkur mistókst hrapallega. Lærdómurinn er… aldrei reyna aftur.“
Væntanlega myndi Heiðar Guðjónsson fjárfestir fagna þeim lærdómi. Hann sagði nýlega í hlaðvarpinu Chess After Dark að sem hluthafi í Íslandsbanka vonaðist hann til að bankinn færi ekki í samrunaviðræður við Kviku heldur héldi bara áfram að kaupa eigin bréf. Það var einmitt það sem bankinn gerði þegar ljóst varð hvert stefndi og á mánudag var tilkynnt að endurkaup á eigin hlutabréfum væru hafin að nýju.
Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. júlí 2025.