Leitun er að hörundsárari starfsstétt en kennarastéttinni. Meðvirkni þeirra sem tjá sig um menntamál er slík að fæstir þora að stinga niður penna án þess að mæra kennara og mikilvægi þeirra.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri benti á dögunum á þá staðreynd að kennarar verji sífellt minni tíma við kennslu á hverjum starfsdegi og að á sama tíma sé hlutfall veikindadaga þeirra mun hærra en þekkist í öðrum starfsgreinum. Úr varð mikið fjaðrafok. Kennarar lögðu niður störf og herjuðu sármóðgaðir á ráðhús Reykjavíkur í leit að afsökunarbeiðni.
Einar var samt sem áður einungis að benda á mælanlegar staðreyndir. Kennsluskylda kennara hér á landi er með því minnsta sem þekkist meðal OECD-ríkjanna. Að sama skapi virðist hafa hlaupið mikill vöxtur í stjórnsýslu skólakerfisins. Frá árinu 1998 hefur starfsfólki skóla fjölgað um 70% og kennurum um 46%. Stöðugildum deildarstjóra og millistjórnenda í skólum landsins hefur fjölgað um 95% frá árinu 2016. Á sama tíma hefur nemendum fjölgað um 12%. Veikindi sem hlutfall af viðveru kennara hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar er 7,4% meðan það er í kringum 3% á almenna vinnumarkaðnum.
Á sama tíma virðist menntakerfið vera að bregðast grundvallarhlutverki sínu: Að kenna börnum að lesa, reikna og gera skilmerkilega grein fyrir hugsunum sínum. Alþjóðlegar kannanir sýna svo ekki verður um villst að íslenska menntakerfið er lélegt. Íslenskir grunnskólanemar eru lélegri í stærðfræði, lesskilningi og náttúruvísindum en jafnaldrar þeirra í OECD-ríkjunum.
Ekki er skorti á fjármunum að kenna um hið ískyggilega ástand í íslensku menntakerfi. Fá ríki verja meira fé skattborgaranna til menntakerfisins en framlög ríkissjóðs á hvern nemanda eru aðeins hærri í Lúxemborg og Noregi í þessu samhengi.
Það er í þessu samhengi sem kennarar boða víðtækar verkfallsaðgerðir. Aðgerðir sem voru samþykktar af miklum meirihluta kennara án þess að skýr kröfugerð lægi fyrir. Það eina sem liggur fyrir í þeim efnum er að kennarar vilja fá sambærileg kjör og sérfræðingar sem starfa hjá ríkinu en ekki liggur fyrir hvort þeir horfa til lögfræðinga í Stjórnarráðinu í þeim efnum eða fiðluleikara hjá Sinfóníuhljómsveitinni í þeim efnum.
Eins og Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, hefur bent á getur líka verið snúið að bera saman laun kennara við stéttir sem eru á svokölluðum pakkalaunum þar sem öll yfirvinna er innifalin í þeirra mánaðarlaunum. Það hversu hljóðir kennarar eru um raunverulegar kröfur sínar í kjaraviðræðum þeirra við Samtök íslenskra sveitarfélaga bendir vafalaust til þess að þeir séu að búa sig undir að sprengja í loft þá sátt sem náðist með heildarsamningunum á almenna vinnumarkaðnum í vor. Þetta gerist á sama tíma og loksins er farin að sjást árangur í baráttunni við verðbólguna og vextir eru teknir að lækka.
Jafnframt er áhugavert að þó að það styttist í verkfall kennara er lítið rætt um hver raunveruleg kjör kennara séu. Ljóst er að reiknivélar á heimasíðum hagsmunasamtaka kennara eru gagnslausar í þeim efnum þar sem þær sýna aðeins grunnlaun og taka ekki tillit til umbunar fyrir þann fjölda annarra skyldustarfa sem kennslan virðist samanstanda af hér á landi.
Í stuttu máli er íslenska menntakerfið dýrt og óskilvirkt. Það er óboðlegt með öllu. Það verður að teljast líklegt að gengið verði til alþingiskosninga á sama tíma og kennarar í fjölda skóla hafa lagt niður störf. Kannski verða menntamál helsta kosningamálið. Til að sú umræða skili einhverju gagnlegu verður að gera kröfu til stjórnmálamanna að þeir hafi eitthvað meira til málanna að leggja en að „þeir standi með kennurum og vilji að þeir fái mannsæmandi laun“. Þess í stað verður að ræða með skynsemi þann djúpstæða vanda sem menntakerfið stendur frammi fyrir og greina hvað nákvæmlega varð til þess að það rataði í þessar ógöngur.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 23. október 2024.