Staða seðlabankastjóra er án efa veigamesta ókjörna embætti landsins. Í ljósi sérstakra aðstæðna – bæði í fortíð, nútíð og framtíð – er einstaklega mikilvægt að vanda valið á þeim sem þar stendur við stjórnvölinn.

* * *

Af þeim ástæðum fékk forsætisráðherra, sem skipar í embættið, til liðs við sig nefnd til þess að fara yfir umsóknirnar og meta hæfi lysthafanna, aðeins þó til ráðgjafar. Nú hefur raunar verið fundið að hæfi hæfisnefndarinnar, bæði í fjölmiðlum og af tveimur umsækjendum, því einn nefndarmanna var ljóslega ótækur í nefndina sakir stjórnarstarfa hjá stærsta viðskiptavini bankans. Samt var ekkert gert með þær aðfinnslur.

* * *

Kannski Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafi ekki þótt það ómaksins virði, þar sem hún væri í engu bundin af áliti nefndarinnar. Sem er líka eins gott, svona þegar horft er til álits nefndarinnar um hverjir af umsækjendunum væru „mjög hæfir“. Sú niðurstaða var svo einkennileg, að engu tali tekur, og raunar engu líkara en að nefndin hafi ekki í neinu leitt hugann að verkefnum seðlabankastjóra, hvorki almennt né þeirra sérstöku verkefna, sem bíða hins nýja bankastjóra.

* * *

Þar ber ef til vill hæst víðtækar stjórnskipulagsbreytingar innan bankans, ekki síst þó þá að Fjármálaeftirlitið mun renna inn í hann á nýjan leik. Jafnframt blasir við að taka þarf peningamálin til frekari endurskoðunar, nú þegar eftirhrunsárin eru að baki, hægst hefur á ferðamannaþenslunni og hagsveifla heimsins á niðurleið, en auk þess er tímabært að huga að eignastýringu Seðlabankans með mun markvissari hætti. Utan úr heimi steðjar svo að ýmis vandi, sem litli Seðlabankinn í litla landinu getur ekki leitt hjá sér. Brexit mun hafa mikil áhrif á eitt okkar nánasta viðskiptaland, Evrusvæðið glímir við mikinn innri vanda, alþjóðlegt gjaldmiðlastríð vofir yfir, linunarferli er hafið hjá bandaríska seðlabankanum og seðlabankar um allar koppagrundir farnir að hamstra gull.

* * *

Það er augljóst að við þessar aðstæður dugir ekki ráða seðlabankastjóra samkvæmt framgangskerfi háskóla eða opinberra starfsmanna, líkt og hæfisnefndin leggur til. Hér dugar enginn húsvörður. Nei, það þarf seðlabankastjóra með mikla og farsæla stjórnunarreynslu, þekkingu á bankaheiminum, eignastýringu og peningamálum, með alþjóðlega yfirsýn.