Óðinn fjallar pistli sínum í Viðskiptablaðinu í morgun hvað gerðist í Garðabæ.
Margir halda ef til vill að þar sé Óðinn að tala um ótrúlega og óvænta stöðu í málefnum Marels hf., skuldavanda Árna Odds Þórðarsonar og forstjóraskipti. En svo er bara alls ekki.
Umfjöllunarefnið er stórfelld aukning skulda í Garðabæ en helming aukningarinnar má skýra með tveimur ákvörðunum bæjaryfirvalda.
Hér á eftir er stutt brot úr pistili Óðins en hann má lesa hér í fullri lengd.
Hvað gerðist eiginlega í Garðabæ?
Skuldir Garðabæjar hafa stökkbreyst á fáum árum. Fyrstu meginskýringuna má finna í því þegar Garðabær sameinaðist Álftanesi í kjölfar gjaldþrots þess síðarnefnda eftir ömurlegan rekstur vinstrimanna í bænum.
Skuldir og skuldbindingar Álftaness, eftir rúmlega helmings afskrift lánastofnana og jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, nam að núvirði um 5 milljörðum króna haustið 2012, þegar kosið var um sameininguna. Skuldir og skuldir Garðabæjar námu hins vegar 6,7 milljörðum.
Þegar skuldirnar eru skoðaðar á hvern íbúa sést að skuldir á mann á Álftanesi voru 2,2 milljónir á mann á núvirði en aðeins 600 þúsund á mann í Garðabæ.
***
Bæjarstjórinn vildi sameiningu
Gunnar Einarsson, þáverandi bæjarstjóri Garðabæjar, var einarður stuðningsmaður sameiningar. Þetta sagði hann degi fyrir kosninguna, í október 2012:
Ég er hlynntur sameiningu. Við erum búin að vera að ræða þessi mál í tvö ár og bora okkur ofan í allar tölur og þætti sem skipta máli í þessu og ég er algjörlega sannfærður um það að þetta sé skynsamlegt og heilladrjúgt skref fyrir Garðbæinga að stíga.
Það sem við höfum haldið fram sem svona sterkustu rökunum fyrir sameiningu er að í fyrsta lagi er þetta ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir hinn almenna Garðbæing. Það er búið að ná skuldunum það vel niður á Álftanesi að þær munu ekki íþyngja Garðbæingum og þjónustan verður alveg sú sama og álögurnar líka. Auk þess er búið er að taka verulega til í rekstri Álftaness þannig að það samfélag á alveg að geta staðið undir sér sjálfbært.
***
Skuldirnar reyndust mun hærri
Heildarskuldir sameinaðs sveitarfélags reyndust mun hærri en þeir 11,7 milljarðar sem kynntir höfðu verið fyrir kosninguna. Voru skuldirnar 2,1 milljarði hærri, eða 13,8 milljarðar.
Þessi verulega skuldaaukning var aldrei almennilega útskýrð þó ekkert bendi til þess að Gunnar og félagar hafi fegrað bækurnar í aðdraganda sameiningarkosninganna.
En það stenst varla skoðun að skuldabyrðin sem Garðbæingar tóku af Álftnesingum við sameiningu hafi ekki haft áhrif. Auðvitað þyngir þetta róðurinn þegar vextir hækka og verðbólga fer úr böndunum.
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.