Sjálfbærni og arðsemi eru hugtök sem eru órjúfanleg frá hvort öðru.  Það er ljóst að athöfn getur ekki talist sjálfbær til lengdar ef hún skilar bæði samfélagslegu og efnahagslegu tapi.

Íslendingar standa í fremstu röð þegar kemur að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og er orkugeirinn og sjávarútvegurinn þar í fararbroddi. Það er óumdeilanleg staðreynd að stjórn fiskveiða á Íslandi hefur skilað miklum árangri þegar kemur að hagræði og aukningu aflaverðmætis.

Íslenskur sjávarútvegur er háþróaður atvinnuvegur í matvælaiðnaði sem keppist að því að skila hágæða hráefni og eftirsóttri matvöru í verslanir og veitingastaði um heim allan. Hagkvæmni kerfisins hefur meðal annars leitt til þess að sjávarútvegurinn hefur haft bolmagn til þess að standa undir þeirri miklu fjárfestingu í skipum, fiskvinnslubúnaði og aðfangakeðjunni til þess að komast á þann stað sem hann er í dag. Afraksturinn af þessari miklu verðmætaskipun hefur verið þjóðinni í hag svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Þrátt fyrir það virðist það vera einbeittur vilji stjórnvalda að grafa undan þessu skipulagi. Sá vilji endurspeglast skýrt þegar rennt er yfir þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í síðustu viku.

Að vísu er á því ein mikilvæg undantekning. Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra virðist gera sér grein fyrir því að orkuskortur sé að grafa undan lífskjörum hér á landi og hefur sett öflun sjálfbærrar orku í algjöran forgang. Aðrir ráðherrar á borð við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra beina spjótum sínum að sjálfbærni og hagkvæmni sjávarútvegsins með stuðningi stjórnarflokkanna.

Atvinnuvegaráðherra mun á komandi vikum leggja fram þrjú frumvörp sem snúa að sjávarútvegi. Það fyrsta er runnið undan rifjum Svandísar Svavarsdóttur formanns Vinstri grænna og snýr að umdeildum hugmyndum um að ríkisstofnanir deili með sér trúnaðarupplýsingum og víðtæku eftirliti með eignarhaldi og stjórnun í greininni. Annað snýr að hækkun veiðigjalds og það þriðja snýr að fjölgun veiðidaga strandveiða og draga þar með úr verðmætasköpun í greininni með því að sækja stærri hluta bolfiskaflans á smábátum í stað öflugri skipakosts.

Fórnarkostnaðurinn við að fjölga sóknardögum strandveiða og veiða aflann á smábátum í stað öflugra skipa í aflamarkskerfinu, þar sem fjárfest hefur verið í skilvirkni og verðmætasköpun, í töpuðu aflaverðmæti fyrir þjóðarbúið gæti numið á bilinu þremur til fjórum milljörðum á ári hverju.

Að öllu öðru óbreyttu mun sóknin þyngjast enn frekar þegar fram líða stundir og krafan um sífellt stærri hlut smábáta í heildaraflanum verða háværari. Fórnarkostnaðurinn er greiddur í sífellt minna aflaverðmæti. Eins og bent var á þessum vettvangi á dögunum er  það þetta sem kallaður er harmleikur almenninganna innan hagfræðinnar.

Strandveiðarnar eru alls ekki sjálfbærar og þegar þær eru farnar að taka til sín jafn stóran hluta heildaraflans og raun ber vitni eru þær skaðlegar þjóðarhag. Þær eru „efnahagsleg sóun“ svo vitnað sé til orða Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra.

Sumir hafa haldið því fram að byggðasjónarmið vegi gegn hagkvæmnisrökunum í þessum efnum. Staðreynd málsins er hins vegar sú að veiðarnar minnka í raun byggðafestu þar sem stærstur hluti þeirra sem stunda strandveiðarnar búa á höfuðborgarsvæðinu og meirihluti aflans er sendur óunninn erlendis og kemur því aldrei inn á golf í fiskvinnslum á landsbyggðinni. Lífið við hafnirnar sem fólki var lofað við upphaf strandveiðanna á sínum tíma byggir á lífinu kringum húsbíla og fellihýsi þar sem að vel stætt fólk af höfuðborgarsvæðinu slakar á með einn kaldan við hönd að loknu dagsverkinu.

Það er að koma í ljós það sem margir vöruðu við: fyrirkomulag strandveiðanna í upphafi myndi alltaf leiða til þess að þær tækju sífellt stærra hlutfall af heildaraflanum og grafa þar með undan mikilvægri verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 12. febrúar 2025.