Í síauknum mæli eru menn farnir að sleppa fiskum eftir viðureignir. Sýnist mönnum allt milli himins og jarðar um þennan gjörning, sumir eru alfarið á móti því að sleppa fiskum, telja að fiskar hafi það ekki af og drepist í miklum mæli og jafnvel að það sé siðferðilega rangt að veiða fisk og drepa hann ekki.

Hvað sem öllum þessum pælingum líður þá er búið að sýna fram á með ítarlegum rannsóknum að fiskar hafa það af í nær öllum tilfellum ef menn meðhöndla þá rétt. Best er að sjálfsögðu að handfjatla fiskinn sem minnst og helst að losa úr honum í vatninu.

Vilji menn taka myndir af fisk og veiðimanni þá er lagt til að menn séu ekki að halda fisknum lengi upp úr vatninu og ákjósanlegt er að nota agnhaldslausa króka. Nauðsynlegt er að vera með töng eða þartilgert tæki til að losa úr fisk sem á að sleppa. Ef fiskur er dasaður þá er mönnum uppálagt að halda honum í góðan tíma í straum eða þar til fiskurinn hefur náð sér. Fiskur sem ekki er búinn að ná sér fer oft á hliðina og það þýðir að hann hefur það ekki af. Ef viðureignir eru langar verður laxinn dasaður og þarf veiðimaðurinn oft að dvelja lengi með hann ofan í vatninu.

Í einni af ferðum mínum á Kolaskagann þar sem öllum laxi er undantekningalaust sleppt lærði ég aðferð við að koma fiski í form eftir viðureign. Ég hafði sett í risastóran lax á þurrflugu og var rúman klukkutíma að togast á við hann. Þegar búið var að vigta fiskinn, lengdarmæla og taka hreistursýni óð ég með hann út til að koma honum í gang. Ég fann að hann var lúinn og sá fyrir mér langa dvöl í vatninu. Þá kom leiðsögumaðurinn til mín og tilkynnti mér að þessi færi á hvíldarheimilið. Þvínæst kom hann laxinum fyrir milli stórra steina, með hausinn niðurá við. Við kíkjum á hann seinna í dag sagði hann. Seinna um daginn dró ég fiskinn rólega út úr gjótunni. Hann hvarf frá mér á leifturhraða og sló niður sporðinum í kveðjuskyni. Ég hef síðan haft þetta fyrir vana ef mér finnst þörf á, núna síðast þegar ég kom stórum urriðahæng fyrir inni í sefi þar sem vatnaði vel um hann. Klukkustund síðar rauk hann frá mér með gusugangi.

Pistill Pálma birtist í Viðskiptablaðinu 25. apríl 2014. Áskrifendur geta nálgast PDF-útgáfu af blaðinu hér að ofan undir liðnum tölublöð .