Týr hefur verið að skemmta sér við að rifja upp vandlætingu ráðherra ríkisstjórnarinnar í kjölfar farsæls útboðs á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022.

Fáir voru hneykslaðri en Kristrún Frostadóttir, þáverandi þingkona, nú forsætisráðherra — en samkeppnin var þó mikil. Sérstaklega frá Sigmari Guðmundssyni, þingmanni Viðreisnar og fyrrum drengjametshafa í sjálfsupphafningu.

Kristrúnu var sérstaklega mikið niðri fyrir þann 7. apríl 2022. Eins og reiðum Íslendingi sæmir, þá setti hún grjótharða færslu inn á samfélagsmiðla. Þar talaði hún um „spillta viðskiptahætti“ og kaup á „ríkiseign á vildarkjörum“.

Týr getur vart ímyndað sér hversu reið Kristrún er um þessar mundir — afslátturinn í útboðinu sem nú stendur yfir er 6,9%, en hann var 4,1% í útboði Bankasýslunnar fyrir þremur árum.

Ofbauð kostnaðurinn

Og Kristrún hafði ekki eingöngu megnustu skömm af afslættinum í útboðinu þá. Hún var sárreið vegna kostnaðarins við útboðið. Hún skrifaði á Facebook-síðu sína:

„700 milljónir króna, 1,4% af söluandvirði, sé óeðlilega há þóknun í tilboðsferli sem átti að lágmarka kostnað ríkissjóðs og réttlætti því lokað útboð?“

Daginn áður birti hún grein á Vísi. Þar segir:

„1,4% af söluandvirði er mjög há upphæð til að koma bréfum til fjárfesta, bréfum sem eru nú þegar á markaði. Það þarf ekki annað en að skoða verðskrár hjá söluráðgjöfum hér heima til að sjá að 1% er hæsta prósentan af söluandvirði og nær alltaf er samið um mun lægri þóknanir þegar stærri fjárfesta og lífeyrissjóði um ræðir, á bilinu 0,2–0,3%.“

Kostnaðurinn við útboðið sem hófst í gær er áætlaður um 900 milljónir króna — eða sem nemur 2,2% af söluandvirði. Í raun var kostnaðurinn við fyrra útboðið lægri, eða tæplega 500 milljónir, þar sem árangurstengdar greiðslur voru ekki greiddar út eins og áætlað hafði verið.

Enn reið í maí

Reiðin var þó ekki runnin af Kristrúnu í maí 2022. Þá skrifaði hún aðra grein á Vísi þar sem hún brá sér í gervi lögfræðings og hélt því fram að jafnræðisreglan hefði verið þverbrotin í útboðinu. Hún gagnrýndi harðlega að söluaðilar hefðu ekki verið valdir með útboði. Rétt er að halda til haga að ráðgjafar voru ekki heldur valdir með útboði í núverandi útboði.

Þá má einnig benda á grein sem bar nafnið: „Skjótfenginn gróði í boði íslensks almennings“. Sú grein byggði á skrifum Þórðar Snæs Júlíussonar, núverandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar. Þau skrif voru öll hrakin af Bankasýslunni. Þetta samstarf Kristrúnar og Þórðar virðist því hafa gefið býsna nákvæm fyrirheit um þá ávöxtun sem samstarf þeirra beggja myndi skila — í ríkisstjórn.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.