Óðinn fjallaði í Viðskiptablaði gærdagsins um fjárfestingaáætlun Orkuveitunnar, óskiljanlega ákvörðun forstjóra félagsins að greiða ekki gjaldeyrissamning við þrotabú Glitnis og mál stjórnarformanns Sýnar.
Hér er hluti pistilsins en áskrifendur geta lesið hann hér í fullri lengd.
Forstjóri látinn hætta?
Óðinn krafðist þess í pistli árið 2020 að forstjóri Orkuveitunnar yrði látinn sæta ábyrgð í málinu. Í september var tilkynnt um forstjórinn myndi hætta, átta mánuðum eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir. Það var auðvitað sett í búning enda Bjarni Bjarnason innmúraður vinstrimaður.
En umboðslausi forstjórinn tók ákvörðun á dögunum sem Óðinn skilur ekki. Annars vegar skilur hann ekki ákvörðunina og hins vegar skilur hann ekki hvers vegna hún fer svo lágt.
Í ágúst var Petrea Ingileif Guðmundsdóttir kjörin stjórnarformaður Sýnar. Vegna átaka innan félagsins var boðað að nýju til hluthafafundar og stjórnarkjörs. Petra hugðist bjóða sig fram að nýju sem stjórnarformaður. Hún dró framboðið til baka og sendi frá sér tilkynningu til fjölmiðla. Þar segir hún:
„Maki minn, Benedikt K. Magnússon, gegnir starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Í lok liðinnar viku setti forstjóri OR honum afarkosti vegna starfs síns, haldi ég áfram í stjórn.
Það er mat OR að seta mín í stjórn Sýnar hafi í för með sér að eiginmaður minn geti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi, vegna mögulegrar ásýndar hagsmunaárekstra, sem myndi því leiða af sér brottvikningu hans úr starfi. Þess vegna hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka.“
Hinn umboðslausi forstjóri sendi einnig frá sér tilkynningu og svaraði fyrrverandi stjórnarformanni Sýnar.
„Það er mitt mat að til þess að framkvæmdastjóri fjármála geti sinnt starfi sínu með fullnægjandi hætti gangi ekki að honum sé meinaður aðgangur að fjárhagslegum og rekstrarlegum upplýsingum. Ég hef tjáð framkvæmdastjóra fjármála þetta. Tekið skal fram að umrætt mál er ekki á borði stjórnar OR heldur er það forstjóri OR sem ber ábyrgð á störfum framkvæmdastjóra fjármála.“
Óðinn gefur reyndar almennt lítið fyrir mat fráfarandi forstjóra Orkuveitunnar. En það má velta því fyrir sér hvort einhver á Íslandi geti sinnt einhverju starfi. Hér er slíkt fámenni. Óðinn gæti í löngu máli farið yfir tengsl ýmissa manna og kvenna í viðskiptalífinu. En hversu langt á að ganga í að vantreysta fólki?
***
Hvar eru femínistarnir nú?
Konur hafa sjaldan náð því að verða stjórnarformenn í félagi í Kauphöllinni. Ef Óðinn man rétt þá var Petrea eina konan sem gegndi stjórnarformennsku í skráðu félagi.
Þá má velta fyrir sér hvers vegna Félag kvenna í atvinnulífinu, eða einhver þeirra fjölmörgu félaga sem aðeins eru konur í, hafi ekki tjáð sig um málið.
Er þeim bara algjörlega sama um að forstjóri opinbers félags hafi hótað eiginmanni konu þannig að hún hættir stjórnarformennsku í kauphallarfyrirtæki?
Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, fimmtudaginn 20. október 2022.