Í stjórnarsáttmála segir: „Vöxtur og velsæld er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Styrkur ríkisfjármála verður byggður upp á ný á grundvelli öflugs atvinnulífs og áhersla lögð á framúrskarandi umhverfi til verðmætasköpunar þar sem til verða ný, fjölbreytt og verðmæt störf. Samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verður undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðug-leika í verðlagi og vöxtum.“ Taka má undir hvert orð en er verið að fylgja þessum markmiðum eftir?
Ein forsenda framúrskarandi umhverfis til verðmætasköpunar er blómlegt og vinsamlegt fjárfestingarumhverfi þar sem fjármagni, áhuga og þekkingu erlendis frá er tekið opnum örmum. Á Íslandi finnst hins vegar eitt strangasta regluverk innan OECD um beina fjárfestingu erlendra aðila þrátt fyrir ótvíræða kosti hennar. Ríkisstjórnin virðist vilja herða það enn frekar með nýrri lagasetningu, án þess að núverandi löggjöf sé tekin til heildstæðrar endurskoðunar samhliða. Þegar talað er um ný, fjölbreytt og verðmæt störf er vonandi ekki átt við störf hjá hinu opinbera.
Greinin birtist í heild í Viðskiptablaðinu þann 28. júlí 2022