Ásgeir Jónsson og félagar í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands eru ekki í öfundsverðri stöðu. Nefndinni ber lögum samkvæmt að halda verðbólgu samkvæmt formlegu 2,5% verðbólgumarkmiði. Verðbólga er nú 6,3%, langt yfir markmiði. Meðan verðbólga er enn svo langt yfir markmiði er eðlilegt að nefndin fari sér hægt í að lækka stýrivexti.

Ásgeir Jónsson og félagar í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands eru ekki í öfundsverðri stöðu. Nefndinni ber lögum samkvæmt að halda verðbólgu samkvæmt formlegu 2,5% verðbólgumarkmiði. Verðbólga er nú 6,3%, langt yfir markmiði. Meðan verðbólga er enn svo langt yfir markmiði er eðlilegt að nefndin fari sér hægt í að lækka stýrivexti.

Þrátt fyrir það liggur nefndin og þá sérstaklega formaður hennar, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, undir stöðugum árásum úr hinum ýmsu áttum. Það eina sem hún hefur þó gert af sér er að vinna vinnuna sína; að reyna að ná verðbólgu niður í verðbólgumarkmið.

Verkalýðsforingjar, þingmenn og ýmsir fleiri hafa í enn eitt skiptið risið upp á afturlappirnar og hjólað í nefndina fyrir að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Fremst í flokki hefur Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, farið.

Nokkrum dögum fyrir vaxtaákvörðun reyndi hún ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, við Íslandsmet í lýðskrumi án atrennu. Í aðsendri grein á Vísi sögðu þau að ef peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði ekki vexti þá ætti ríkisstjórnin að grípa til neyðarlaga. Sem sagt, ef peningastefnunefnd vogaði sér að taka aðra ákvörðun en var þeim þóknanleg ætti ríkisstjórnin að brjóta lög með því að kippa sjálfstæði Seðlabankans úr sambandi.

Það er eitt að formaður skrifstofufólks og millistjórnenda vaði fram með svo farsakennda hugmynd en öllu verra þegar þingmaður, sem þar að auki situr í efnahags- og viðskiptanefnd, beinlínis hvetur stjórnvöld til að fremja lögbrot. Sem betur fer hljóta hugmyndir af þessu tagi aldrei hljómgrunn, enda vilja flestallir þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar fylgja lögum og reglum sem í landinu gilda.

Sama dag og peningastefnunefnd greindi frá því að vextir yrðu óbreyttir reyndi Ásthildur Lóa á ný við Íslandsmet þegar hún birti á ný grein á Vísi. Í þetta skiptið skipti hún þó Ragnari Þór út fyrir Ingu Sæland, formann Flokks fólksins. Í stuttu máli var greinin áþekk fyrri greininni og var á ný ítrekuð sú krafa að ríkisstjórnin gripi fram fyrir hendur Seðlabankans með setningu neyðarlaga. Ef trúverðugleiki flokkssystranna var einhver fyrir er hann að engu orðinn eftir fullyrðingu þeirra um að á Íslandi sé „rekin lang versta efnahagsstjórn í heimi þegar litið er til ríkja sem geta með stolti kallað sig lýðræðis og réttarríki“. Þvert á móti sé rekin hagstjórn sem sé á pari við vanþróuð og stríðshrjáð lönd.

Vissulega má segja að hagstjórnin hér á landi sé ekki fullkomin og hafa ríkisútgjöld til að mynda blásið út á undanförnum árum með tilheyrandi hallarekstri ríkissjóðs. Aftur á móti þarf engan hagfræðisnilling til að átta sig á því að víða er hagstjórn verri, enda stendur íslenskt efnahagslíf þrátt fyrir allt vel í alþjóðlegum samanburði.

Miðað við málflutning þríeykisins má ætla að þau vilji feta í fótspor Recep Erdogan, forseta Tyrklands, og fara tyrknesku leiðina. Forsetinn aðhyllist eins og þekkt er ekki viðteknar kenningar um stjórn peningamála. Hann telur að stýrivaxtahækkanir gagnist ekki í baráttunni fyrir verðstöðugleika. Þvert á móti er hann sannfærður um lágir vextir leiði til verðstöðugleika. Afleiðingar þeirrar stefnu hefur verið fyrirsjáanleg: gengi tyrkneska gjaldmiðilsins hefur hríðfallið og óðaverðbólga geisað um langt skeið.

Viðskiptablaðið tekur að sjálfsögðu undir það að mikilvægt er fyrir heimilin í landinu að stýrivextir verði lækkaðir. Aftur á móti er ómögulegt fyrir peningastefnunefnd að hefja vaxtalækkunarferli fyrr en teikn eru á lofti um að verðbólga og verðbólguvæntingar séu að þokast nær verðbólgumarkmiði. Popúlískar aðdróttanir í garð nefndarmanna, sem hafa það eitt sér til saka unnið að standa einir í baráttunni við verðbólguna, hjálpar svo sannarlega ekki til við það. Þvert á móti gerir það þeim erfiðara fyrir um vik við að ná endanlegu markmiði sínu, sem er að verðbólga sé við 2,5% markmið, þjóðinni allri til heilla.

Leiðarinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.