Upphefðin kemur að utan og ekkert lát virðist vera á velgengni íslensks afreksfólks á erlendum vettvangi um þessar mundir. Þannig lásu hrafnarnir um að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-,iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefði verið valinn besti ungi stjórnmálamaður ársins á dögunum. Það er skammt stórra högga á milli á vettvangi stjórnmálanna því á þriðjudag barst tilkynning frá Þórdísi Lóu Þórhallsdóttir, forseta borgarstjórnar, um að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar hefði verið valin kona ársins hjá World Growth Forums. Ekki liggur listafólkið á liði sínu. Hrafnarnir hafa lesið eins og aðrir að fátt hafi vakið meiri athygli almennings sem vottaði Elísabetu II virðingu sína í kirkju heilags Giles í vikubyrjun en glerlistaverk listamannsins Leifs Breiðfjörð.
Hrafnarnir bíða nú spenntir eftir því að tilkynnt verði um að Euromoney hafi valið alla íslensku bankana sem þá bestu enn eitt árið í röð.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. september 2022.