Verðbólgan liggur yfir landinu, dálítið eins og veðrið. Súr og köld. Við finnum að hún þrengir að. Allt er dýrara og svigrúmið til þess að takast á við ófyrirséð útgjöld er minni.
Vonandi bilar bíllinn ekki fyrir jólin. Vonandi þarf ekki að skipta út þvottavélinni.
Þetta þarf ekki að vera svona. Nágrannalönd okkar búa ekki við þennan verðbólguvágest. Hvorki Noregur og Svíþjóð með sína sjálfstæðu gjaldmiðla, né Danmörk og Finnland með evru og evrutengingu. Meira að segja Færeyjar, með sitt litla sveiflukennda hagkerfi, upplifa ekki sama verðbólguvanda og Íslendingar.
Hvers vegna er verðbólgan svona þrálát hér? Svarið er einfalt. Agi í fjármálum ríkisins er ekki sá sami á Íslandi og í nágrannalöndunum. Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki verið tilbúnir að setja stöðugleika í forgang. Þeir vilja að Seðlabankinn sé einn í því hlutverki að tryggja stöðugleika svo þeir geti áfram gefið loforð sem ekki er innistæða fyrir. Eytt peningum sem eru ekki til og sent reikninginn á almenning.
Takmörkuð áhrif vaxtaákvarðana
Getu Seðlabankans eru hins vegar takmörk sett. Vaxtaákvarðanir hans hafa áhrif en þau eru takmörkuð við fáa aðila, m.a. vegna verðtryggingarinnar og þess vegna þarf að beyta vaxtatækinu af meiri grimmd hér en annarsstaðar. Afleiðingin er meiri verðbólga og hærri vextir. Þessu þarf að breyta.
Kostnaðurinn við þessa verðbólgu og óstöðugleika er mikill. Hann setur fjárhag einstaklinga og fyrirtækja í uppnám. Býr til óvissu um framtíðina. Leiðir til hærra vaxtastigs sem takmarkar fjárfestingar og hækkar rekstrarkostnað einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Til viðbótar kemur kostnaður vegna glataðra tækifæra. Flest íslensk fyrirtæki sem það mega, hafa þess vegna yfirgefið krónuhagkerfið og gera upp í erlendri mynt. Sá stöðugleiki sem fyrirtækin eru að sækja í, á að standa okkur öllum til boða. Við eigum öll rétt á stöðugum gjaldmiðli.
Ekki meira umfang hins opinbera
Sumir stjórnmálamenn virðast telja að vandamálið sé hægt að leysa með skattlagningu. Tilfellið er að umfang í rekstri hins opinbera hér á landi er þegar orðið of mikið. Ísland trónir á toppi þeirra ríkja með hæst hlutfall ríkisútgjalda. Enn frekari hækkun er ekki leiðin áfram.
Það sem þarf að gera er að nýta betur þær tekjur sem ríkið aflar sér. Hagræða í rekstrinum og lækka skuldir. Viðreisn leggur áherslu á hagkvæmari innkaup á vörum og þjónustu. Árlegt umfang þeirra er um 250 milljarðar. Þar má gera betur. Sama á við um framkvæmdir hjá hinu opinbera, sem undantekningalítið fara bæði fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum.
Nýtum vaxtakostnaðinn í annað betra
Á Íslandi eru mun fleiri stofnanir á vegum hins opinbera en í nágrannalöndunum, þrátt fyrir að Íslendingar séu mun fámennari. Þarna er tækifæri til að gera betur. Einnig eru tækifæri í að selja eignir, s.s. hlut ríkisins í Íslandsbanka og byggingaland í eigu ríkisins, sem stendur ónotað á sama tíma og skortur er á húsnæði. Nýta þarf afraksturinn af betri rekstri í að lækka skuldir og skapa þannig svigrúm til að bæta þjónustu, t.d. í heilbrigðismálum og vinna á innviðaskuldinni sem núverandi stjórnvöld hafa skilið eftir sig.
Á endanum eru það kjósendur sem ákveða hvort setja eigi stöðugleika í forgang með því að velja flokka sem eru tilbúnir til þess að beyta fjármálum hins opinbera, vilja ráðast að rót vandans sem er að tryggja aga í ríkisfjármálum og setja stöðugleikann í forgang. Viðreisn er tilbúin í það verkefni.
Höfundur er formaður Viðreisnar.