Samtök atvinnulífsins framkvæmdu í annað sinn könnun um upplifun atvinnurekenda af ferli jafnlaunavottunar, eða jafnlaunastaðfestingar sem fyrirtækjum með 25-49 starfsmenn er nú heimilt að undirgangast í stað vottunar. Þó nokkur fjöldi fyrirtækja hefur undirgengist jafnlaunavottun eða -staðfestingu og hafa mörg þeirra jafnvel hafið endurnýjun vottunar. Það er því komin umtalsvert meiri reynsla á ferlið en í fyrri könnun samtakanna, sem framkvæmd var árið 2021. Niðurstöðurnar voru eins skýrar og vænta má. Einungis 22% svarenda töldu ávinninginn af ferlinu vera meiri en kostnaðinn.

Yfirgnæfandi meirihluti svarenda veitti ferlinu neikvæða endurgjöf í opnum svörum könnunarinnar. Þar kom helst fram að ferlið væri kostnaðarsamt, framkvæmdin væri erfið og tímafrek, þjónaði ekki tilgangi miðað við eðli fyrirtækjanna, samræmdist illa framkvæmd kjarasamninga, úttektir væru of tíðar, erfitt væri að umbuna framúrskarandi starfsfólki óháð kyni og töldu margir að vottunin ætti að vera valkvæð. Vissulega voru einhverjir jákvæðir gagnvart ferlinu og töldu staðalinn geta hjálpað fyrirtækjum að auka formfestu í launaákvörðunum.

Samtök atvinnulífsins hafa frá öndverðu stutt tilurð jafnlaunastaðalsins enda getur hann nýst sem eins konar gæðastjórnunarkerfi þegar kemur að launaákvörðunum, einkum í stærri fyrirtækjum. Því til stuðnings má nefna að mörg fyrirtæki höfðu þegar gengið í gegnum jafnlaunavottun að eigin frumkvæði áður en staðallinn var lögfestur. Samtökin hafa þó aldrei stutt lögfestingu staðalsins meðal annars af þeim ástæðum sem atvinnurekendur tilgreina í könnuninni. Að auki er lögfestingin hvorki til þess fallin að draga úr launamun kynjanna, sem skýrist einkum af kynbundnum vinnumarkaði, né heldur tryggja að hvergi geti leynst kynbundin mismunun þegar kemur að launasetningu á vinnumarkaði. Verkfærið er einfaldlega ekki til þess bært enda var leitun að þeim tölfræðingi sem studdi lögfestingu vottunarinnar á sínum tíma. Hins vegar er staðreyndin sú að ekkert fyrirtæki hefur hagsmuni af því að mismuna starfsfólki sínu í launum á grundvelli kynferðis. Allt atvinnulífið ber ótvíræðan hag af því að starfsfólk fái notið eigin verðleika óháð kyni.

Niðurstöðurnar ættu að vera stjórnvöldum umhugsunarefni. Vestræn ríki hafa verið sérlega iðin við að innleiða auknar kröfur á atvinnulífið á undanförnum árum og áratugum. Löggjafinn í Evrópu virðist hins vegar hafa áttað sig á því að gífurlegt fargan kostnaðarsamra en tilgangslausra kvaða er að skerða samkeppnishæfni álfunnar, draga úr hagvexti og þar með lífskjörum íbúanna. Þar hefur nú verið sett sérstakt markmið um að draga úr slíkum kvöðum svo atvinnulífið fái aukið svigrúm til að gera það sem það gerir best – að skapa verðmæti, hagsæld og tækifæri. Afnám lögfestingar jafnlaunavottunar væri tilvalið fyrsta skref nýrrar ríkisstjórnar í átt að sama markmiði.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs SA.