Oft er talað um að menn sitji beggja vegna borðsins og þykir það ekki alltaf mjög heppilegt. Jónas Garðarsson sinnir hagsmunagæslu fyrir sjómenn og hefur gert það af mikilli festu. Hann situr í samninganefnd fyrir hönd Sjómannafélags Íslands og hefur barist fyrir hærri launum starfsmanna á Herjólfi.
Á sama tíma hefur Jónas verið að berjast fyrir því að halda launum sjúkraliða niðri en á þeim vígstöðvum er hann stjórnarmaður Hrafnistu, dvalarheimila aldraðra sjómanna.
Vissulega er ekki hægt að segja að í þessum málum sitji Jónas beggja vegna borðsins, því borðin eru jú tvö, en það er e.t.v. til marks um hæfni hans í samningatækni að hann virðist jafnvígur á báðar í þessum málum.
Huginn & Muninn birtist í Viðskiptablaðinu 28. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .