Ég stend sjálfan mig að því að skella mér kósýfötin fljótlega eftir að ég er kominn heim úr vinnu og um helgar fer ég helst ekki úr þeim nema brýna nauðsyn krefji. Ég verð eiginlega hálf fúll ef ég þarf að fara úr kósýfötunum í venjuleg föt því það þýðir að eitthvað óvænt hefur gerst. Einhver er að koma í heimsókn nú eða ég þarf allt í einu að fara eitthvað út. Það að klæða sig í kósýföt er nefnilega ákveðin yfirlýsing um að hefðbundnu amstri dagsins sé lokið og minn tími sé runninn upp.

Mín vetrar-kósýföt eru tiltölulega einföld. Devold-buxur og peysa úr sirka 80% merino-ull. Afskaplega notalegur klæðnaður að öllu leyti. Á sumrin leysa stuttbuxur og bolur merino-ullina af hólmi.

Nú kann einhver að spyrja. Afhverju í ósköpunum er maðurinn að skrifa um kósýföt? Nú, það er vegna þess að góð kósýföt eru eins og hið fullkomna líf á að vera — þægileg og mega alls ekki þrengja neins staðar að. Í kósýfötunum líður manni best, þess vegna ættu þau í rauninni að vera staðalklæðnaður allra. Burt með gallabuxur, þröngar skyrtur og allt þetta aðsniðna, slim-fit drasl. Ég held að heimurinn yrði pínulítið betri af allir gætu sammælst um að ganga alltaf í kósýfötum.

Ég hef reyndar séð menn og konur í kósýfötunum úti á götu. Þá er ég ekki að tala um fólkið sem þurfti snöggvast að skjótast út í Nóatún eftir fréttir til að kaupa papriku skrúfur og ídýfu og nennti ekki að skipta um föt áður. Nei ég er að tala um fólk sem af fúsum og frjálsum vilja gengur í kósýfötum dags daglega. Ég verð að segja að ég ber virðingu fyrir þessu fólki. Þetta er sama fólk og segir sína skoðun á Facebook en er ekki að fiska eftir lækum.

Ég vorkenni alltaf bankafólkinu sem allan daginn gengur í stífpressuðum jakkafötum eða drögtum. Þessi stétt ætti að læra af læknum og hjúkkum sem einfaldlega vinna í kósýfötum. Alveg eins og ég kenni smá í brjósti um bankamenn öfunda ég rithöfunda, sem þurfa ekki einu sinni að skafa af bílnum á morgnana því þeir eru bara heima í kósýfötunum allan daginn að vinna.

Þegar ég sá helstu þjóðarleiðtoga heims ganga um götur Parísar í frekar líkum óþægilegum flíkum um síðustu helgi gat ég ekki varist þeirri hugsun að nú sæti forsætisráðherra Íslands uppi í sófa heima í kósýfötunum.