Uppáhalds frambjóðandi Týs í forsetakosningunum er Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar. Hrafnarnir kunna vel við ríkisforstjóra sem enginn veit hver er. Það er merki um að hún sé að sinna störfum sínum vel. Það að ríkisforstjórar séu á allra vitorði er merki um að þeir séu einmitt ekki að gera það. Þetta hlýtur svo að vera sérstaklega góður kostur í fari forstjóra Persónuverndar.

Rétt er að taka fram að Ívar J. Arndal er undantekningin sem sannar þessa reglu.

***

Því miður virðist Helga ekki gera sér fyllilega grein fyrir þessari mikilvægu staðreynd. Morgunblaðið hafði á eftir Helgu á dögunum: „Ég er greinilega óþekkti embættismaðurinn og hef greinilega unnið verk mín hljóðar heldur en ég að einhverju leyti bjóst við þrátt fyrir að hafa verið lögfræðingur í opinbera geiranum í 29 ár.“

Það er óneitanlega sérstök heimsýn að ganga út frá því sem vísu að það að hafa verið lögfræðingur hjá ríkinu í áratug seti mann á stall með Ladda, Bubba Morthens og Ómari Ragnarssyni. En látum það vera.

***

En Helga er ekki að baki dottin þó svo að fylgi hennar mælist vart. Eins og hún segir sjálf við Vísi: „Ég er með fullkomna jarðtengingu, er krabbi, í vatnsmerkinu og átta mig á því að staðan gæti verið betri. En ég er bara fullviss um og trúi á mína þekkingu og ætla að reyna ögn áfram. Hvort íslenska þjóðin átti sig ekki á dömunni. Sjáum hvað setur, aðeins í viðbót.“

Að mati Týs er einstætt tækifæri að hafa kost á því að kjósa einstakling sem er krabbi í vatnsmerkinu á Bessastaði. Sennilega eru það sterkustu rökin fyrir að kjósa Helgu og að mörgu leyti rök sem eru yfirsterkari ástæður fyrir að velja aðra frambjóðendur.

***

Aftur á móti sér Týr rök gegn því að kjósa Helgu. Í viðtalinu við Vísi segir hún um framhaldið og möguleika hennar til þess að vera kjörin á Bessastaði: „En ég er bara fullviss um og trúi á mína þekkingu og ætla að reyna ögn áfram. Hvort íslenska þjóðin átti sig ekki á dömunni. sjáum hvað setur, aðeins í viðbót.“

Þessi hugsun afhjúpar þann leiða og djúpstæða misskilning sem er ríkur meðal embættismanna þessa lands: Að þeir séu eitthvað merkilegir starfsins vegna og séu þess vegna sérstaklega kallaðir til þess að leiða land og þjóð. Mættu fleiri forsetaframbjóðendur en Helga taka þá staðreynd til umhugsunar.

Týr er einn af föstum skoðanapistlum Viðskiptablaðsins.