Hrafnarnir lásu um afmælisferð LeiðtogaAuðar til Lissabon á dögunum en um er að ræða hóp innan Félags kvenna í atvinnulífinu.
Í afmælisferðinni var þétt dagskrá af fræðslu, flæði og endurfundum. Fjörutíu kvenkyns leiðtogar úr íslensku atvinnulífi fóru í ferðina. „Nýjar tengingar innan hópsins, dýpri tengingar og jarðtenging“ segir í kröftugri umfjöllun Morgunblaðsins um ferðina en í henni er meðal annars rætt við Svanhildi Jónsdóttur sem er formaður LeiðtogaAuðar.
Fram kom að leiðtogarnir fjörutíu hefðu heimsótt höfuðstöðvar Energias de Portugal sem er stærsta orkufyrirtæki Portúgals. Það hvarflar ekki að hröfnunum að einhver tengsl kunni að vera á milli heimsóknarinnar og þeirrar staðreyndar að allur Íberíuskaginn varð rafmagnslaus skömmu síðar. En það er þetta með jarðtenginguna.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom 30. apríl 2025.