Konur í íslensku atvinnulífi fjárfesta síður en karlar, þrátt fyrir mikla menntun, góða innkomu og víðtæka reynslu. Þessi staðreynd er ekki ný, en niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa skýrari mynd af því hvað liggur þar að baki og hvernig megi vinna gegn kynbundnu fjárfestingabili.
Rannsóknin, sem unnin var af fræðimönnum við Háskóla Íslands í samstarfi við Arion banka, byggir á könnun meðal 316 kvenna í Félagi kvenna í atvinnulífinu. Þátttakendur eru konur með sterka stöðu á vinnumarkaði, stjórnendur, frumkvöðlar og leiðtogar í íslensku viðskiptalífi. Þær ættu í raun að búa yfir öllum forsendum til að taka virkan þátt á fjármálamarkaði.
Niðurstöðurnar sýna hins vegar að margar þeirra mæta kerfisbundnum hindrunum, ekki aðeins í formi skorts á fjármagni eða tíma, heldur einnig í gegnum félagsmótun, óöryggi og skort á fyrirmyndum.
Ónotaður fjárfestingarkraftur
Algengustu hindranir sem konurnar nefndu voru skortur á fjármagni, fjárhagslegri þekkingu og ótti við áhættu. Þá nefndu margar tímaskort og skort á fyrirmyndum í nærumhverfi sínu. Þessar niðurstöður eru sláandi í ljósi þess að rannsóknin beinist að konum sem flestar hafa mikla menntun og reynslu og eru vel yfir meðallagi í tekjum. Höfundar greinarinnar benda á að þetta séu ekki konur sem skortir burði, heldur er ástæðan frekar sú að kerfið hefur ekki hvatt þær nægilega eða veitt þeim tæki og tól til að treysta sér í fjárfestingar.
Fjármálafræðsla og fyrirmyndir skipta sköpum
Ein af sterkustu niðurstöðunum er sú að konur sem fengu fjármálafræðslu í æsku, hvort sem var í skóla eða frá foreldrum, voru marktækt öruggari með að taka fjárfestingaákvarðanir. Þær voru einnig síður líklegar til að telja skort á þekkingu eða fyrirmyndum sem hindrun. Þá kom fram að þær sem höfðu nýtt sér aðstoð sérfræðinga töldu frekar að þær hefðu ekki fyrirmynd í nærumhverfi sínu. Sú niðurstaða gæti bent til þess að slíkt aðgengi virki sem staðgengill eða brú yfir bilið sem fyrirmyndirnar skilja eftir sig.
Átak Arion banka skiptir máli
Í þessu samhengi er vert að nefna átak Arion banka, Konur fjárfestum, sem hefur vakið athygli og aukið umræðu um fjárfestingar kvenna. Með því að sameina fræðslu, aðgengi og vettvang til umræðu hefur bankinn opnað nýjan möguleika fyrir konur sem áður töldu sig ekki eiga erindi inn á hlutabréfamarkað eða aðrar fjárfestingarleiðir. Með persónulegri nálgun og skýrri fræðslu hefur átakinu tekist að skapa umræður og áhuga á fjárfestingum meðal kvenna. Þrátt fyrir það eru enn margar konur sem hafa ekki hafið fjárfestingar en lýsa auknum vilja til þátttöku, sem bendir til þess að félagslegar hindranir eins og skortur á sjálfstrausti og aðgengi að aðstoð standi enn í vegi.
Kynjabil í fjárfestingum – þjóðhagslegt viðfangsefni
Kynbundið misræmi í fjárfestingum er ekki aðeins persónulegt eða félagslegt mál, það hefur þjóðhagslega þýðingu. Alþjóðabankinn áætlar að ef konur fengju sömu tækifæri til fjárfestinga og karlar, gæti það aukið verga landsframleiðslu heimsins um allt að 20%.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda á að efnahagslegt sjálfstæði kvenna byggi ekki aðeins á launum, heldur einnig á eignamyndun og fjárfestingum. Minni þátttaka kvenna á fjármálamarkaði getur haft langtímaáhrif á fjárhagslegt öryggi þeirra, ekki síst ef frjáls sparnaður á að verða hluti af eftirlaunakerfinu, líkt og víða er stefnt að.
Tillögur til úrbóta
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna fjórar meginleiðir til að draga úr kynjamun í fjárfestingum og efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna. Þessar leiðir krefjast samstillts átaks bæði stjórnvalda, fjármálastofnana, menntakerfisins og atvinnulífsins og snúa að því að skapa umhverfi sem gerir konum kleift að taka upplýstar og sjálfstæðar fjárfestingaákvarðanir:
- Aukið fjármálalæsi – Nauðsynlegt er að styrkja markvissa fræðslu um fjármál í grunn- og framhaldsskólum, sem og í símenntun fullorðinna. Hér gegnir menntakerfið lykilhlutverki í að leggja grunn að sjálfstrausti og þekkingu í fjármálum frá unga aldri.
- Sérsniðin fjármálaþjónusta – Fjármálastofnanir geta stuðlað að meiri þátttöku kvenna með því að þróa ráðgjöf og lausnir sem taka mið af ólíkum þörfum, bakgrunni og fjárhagslegum aðstæðum. Það getur falið í sér bæði stafrænar lausnir og persónulega þjónustu sem eflir traust og aðgengi.
- Stuðningur við efnahagslegt sjálfstæði – Stjórnvöld og atvinnulífið þurfa að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, draga úr launamun og styðja við félagslega innviði sem gera konum kleift að taka virkan þátt í fjárhagslegum ákvörðunum.
- Fyrirmyndir og aðgengi – Mikilvægt er að auka sýnileika kvenna sem fjárfesta og tryggja aðgengi að hlutlausri og gagnsærri fjármálaráðgjöf. Hér geta fjölmiðlar, fjármálastofnanir og atvinnulífið lagt sitt af mörkum með því að sýna fjölbreyttar fyrirmyndir og skapa vettvang fyrir samtal og fræðslu.
Höfundur er prófessor og stofnandi Rannsóknaseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi við Háskóla Íslands.
Um rannsóknina:
Ásta Dís Óladóttir, Þóra H. Christiansen, Haukur Freyr Gylfason, Gylfi Magnússon, Haukur C. Benediktsson og Freyja Vilborg Thorarinsdottir (2025). Fjárfestingar kvenna í íslensku atvinnulífi: Áhrifaþættir, hindranir og hvatar. Tímarit um Viðskipti og efnahagsmál, 22(1).
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 5.995 kr. á mánuði