Sé eitthvað að marka skoðanakannanir er tvísýnt hvort Píratar nái manni inn á þing í kosningunum um mánaðamótin.

Fylgi flokksins hefur ekki náð flugi þrátt fyrir að frambjóðendur flokksins hafi sett mál sem brenna á þjóðinni á borð við að takmarka rekstur baðlóna í dreifbýli. Greina má örvæntingu hjá þingmönnum flokksins vegna þessa. Þannig lýsti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir því yfir að rökrétt afleiðing kjörs Donalds Trump til forseta Bandaríkjanna á dögunum væri að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Þá hefur hún einnig lýst því yfir að stofna eigi enn eina ríkisstofnunina – Spillingarstofu ríkisins og á hún að rannsaka spillingu.

Þessi hugmynd fékk hrafnana til þess að rifja upp stefnumál Samfylkingarinnar um að Íslandsdeild Transparency International verði sett á fjárlög. Þingmenn á borð við Kristrúnu Frostadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis fyrir tveimur árum. Sem kunnugt er þá hefur Íslandsdeildin verið nokkurs konar listamannanafn frelsiskyndla á borð við Atla Þór Fanndal, Guðrúnu Johnsen og Árna Múla Jónassonar í baráttu þeirra fyrir ýmsum áhugamálum vinstri manna.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. nóvember 2024.