Íslandsmótið í höggleik hefst á fimmtudag og fer fram á hinum glæsilega Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði.
Hrafnarnir hlakka jafnan til mótsins, enda hefur Ríkisútvarpið staðið sig vel með beinar útsendingar undanfarin ár. Það verða þeir Jón Júlíus Karlsson og Ólafur Þór Ágústsson sem lýsa, en þar að auki fetar íþróttadeildin þá norsku leið að ganga með út á völl. Þar mun Gunnar Birgisson ganga með keppendum og lýsa því sem fyrir augu ber. Hrafnarnir fagna því að í ár verður talsverður metnaður lagður í umgjörð mótsins, sem ætti að verða til þess að golfáhugamenn geri sér ferð á Hvaleyrina til að fylgjast með keppninni.
Á vellinum verður meðal annars risaskjár, veitingatjald fyrir hundrað manns og sérstakt „fan zone“ fyrir utan klúbbhúsið. Hrafnarnir bíða nú spenntir eftir að leiðinlegasta fólk landsins opni umræðuna um hvort það virkilega standi til að selja bjór meðan á mótinu stendur – og hvort réttlætanlegt sé að áfengi sé haft um hönd á íþróttaviðburði.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. ágúst 2025.