Stundum er umræðan hér á landi með þeim hætti að Týr þráir einna helst á komast á erlenda grund og hverfa þar inn í fjöldann með Hafdísi og Kleina. Þessi þrá magnast alla jafnan upp í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Þegar vextir hækka stíga alþýðuhetjurnar í verkalýðshreyfingunni fram og tala um dekur við fjármagnseigendur og aðför að skuldugum heimilum af mikilli innlifun. En hverjir eru þessir fjármagnseigendur?
***
Mikill meirihluti landsmanna skipar sér í flokk fjármagnseigenda með einum eða öðrum hætti. Fólk á vinnumarkaði byggir upp lífeyrissparnað sem er stýrður af lífeyrissjóðum sem fjárfesta í verðbréfum og innlánum. Eins og flestir lesendur Viðskiptablaðsins vita þá hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í þeim efnum á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði hérlendis undanfarin ár.
Heimili landsins eiga einnig sparnað í hlutabréfum og verðbréfasjóðum. Eins og tölur Seðlabankans sýna þá hafa þau gengið á stóran hlut þess sparnaðar samhliða sífelldum lækkunum á verðbréfamörkuðum. Þessir fjármagnseigendur þurfa fyrst og fremst innilegt faðmlag um þessar mundir fremur en dekur að hálfu Ásgeirs Jónssonar og hans fólks í Seðlabankanum.
***
Þannig að einu fjármagnseigendurnir sem raunverulega er verið að dekra um þessar mundir eru þeir sem eru með allan sinn sparnað á bundnum verðtryggðum reikningum. Það er með öðrum orðum verið að saka Seðlabankann um að dekra við skírnar- og fermingarbörn. Í því felst stóra samsærið í augum leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar.
Tý þykir átakanlegt að þetta sé umræðan sem er í boði um efnahagsmál hér á landi og eins og fyrr segir þráir hann því ekkert heitar en að slökkva á símanum og hverfa í fjöldann með Dísu og Kleina þegar sú síbylja magnast upp.
Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.