Hagstjórn hér á landi átti margt sammerkt með hinum Norðurlöndunum í heimsfaraldrinum. Ríkisútgjöld voru hækkuð gífurlega samhliða sögulega lágum vöxtum til stuðnings viðkvæmu hagkerfi. Í kjölfarið sigldi verðbólguskot og seðlabankar landanna beittu stýritækjum sínum, fyrst og fremst vaxtahækkunum, enda þurfti að sporna við tveggja stafa verðbólgutölum víða á Norðurlöndunum, hæst 12,3% í Svíþjóð.
Hagstjórn hér á landi átti margt sammerkt með hinum Norðurlöndunum í heimsfaraldrinum. Ríkisútgjöld voru hækkuð gífurlega samhliða sögulega lágum vöxtum til stuðnings viðkvæmu hagkerfi. Í kjölfarið sigldi verðbólguskot og seðlabankar landanna beittu stýritækjum sínum, fyrst og fremst vaxtahækkunum, enda þurfti að sporna við tveggja stafa verðbólgutölum víða á Norðurlöndunum, hæst 12,3% í Svíþjóð.
Mikið hefur verið rætt um orsök þrálátrar verðbólgu hér á landi. Sitt sýnist hverjum og undirrituð þarf vart að bæta miklu við þá umræðu. Þar hafa vaxandi umsvif hins opinbera einna helst legið undir ámæli að undanförnu, sem er skiljanlegt. Að fara ávallt vel með annarra manna fé ætti að vera sjálfsagt leiðarljós allra stjórnmálamanna, hvort sem þeir tilheyra vinstri eða hægri vængnum.
Þessu virðist ekki mikið betur farið á hinum Norðurlöndunum. Skattgreiðendur í Noregi fjármagna til að mynda ekki aðeins eina lúðrasveit fyrir herinn heldur fimm, en þar á meðal ku vera 32 stöðugildi á klarínett. Það er vert að halda því til haga, líkt og Fjármálaráð benti á í álitsgerð sinni um fjármálaáætlun 2025 – 2029, að útgjaldaaukning hins opinbera í heimsfaraldrinum var á pari við viðbrögð helstu samanburðarlanda. Aftur á móti hefur gengið hægar að vinda ofan af aðgerðunum hér á landi þrátt fyrir sterka viðspyrnu hagkerfisins. Það er því ekki að undra að landsmenn velti því fyrir sér hvort vandamálið sé að einhverju leyti djúpstæðara hér á landi en víðar.
Þrátt fyrir seinagang hins opinbera að þessu leyti, sem ekki ætti að líta fram hjá, þá bliknar hann í samanburði við launahækkanir síðustu ára á íslenskum vinnumarkaði. Þar hefur hið opinbera reyndar einnig spilað stórt hlutverk og verið leiðandi í launaþróun ásamt því að taka rausnarlega þátt í kjarasamningum á almennum markaði, þrátt fyrir að eiga þar enga formlega aðild. Ef ætlunin er að tryggja efnahagslegan stöðugleika til lengri tíma, áþekkan þeim sem þekkist í okkar nágrannalöndum, þurfa sjónir að beinast að vinnumarkaði og brotalömum hans. En hvers vegna?
Vinningurinn í ratleiknum
Svarið liggur í kaupmætti. Þegar vextir eru hækkaðir til að stemma stigu við verðbólgu og draga úr umsvifum en laun eru hækkuð svo mjög að kaupmáttur stendur óhaggaður lengist baráttan við verðbólguna óhjákvæmilega. Þróun síðustu ára sýnir þetta svart á hvítu. Uppsöfnuð kaupmáttaraukning hér á landi frá lokum árs 2019 nam 5,8%. Á sama tímabili rýrnaði kaupmáttur á öllum hinum Norðurlöndunum, mest um 7% í Svíþjóð. Það að kaupmáttur hafi horfið á hinum Norðurlöndunum endurspeglast í þeim verðbólgutölum sem við sjáum í dag, enda viðheldur kaupmáttur umsvifum í hagkerfinu. Á sama tíma hafa aðilar vinnumarkaðarins hér á landi keppst við að vinna ratleikinn „Leitað að hornum í kringlóttu herbergi“, þar sem hamast er við að afneita efnahagslegum lögmálum sem gerir lítið annað en grafa undan möguleikunum á efnahagslegum stöðugleika.
Þrátt fyrir allt virðist hagkerfið loksins vera farið að kólna. Hagvöxtur dróst saman á fyrri hluta ársins og horfur eru á 0,9% hagvexti í ár. Þá hefur velta dregist saman í tæplega helmingi atvinnugreina og hagvísar í ferðaþjónustu benda til minni umsvifa í greininni. Á sama tíma og margt bendir til þess að hagkerfið sé að kólna þá bárust nýlega fregnir af því að atvinnuþátttaka hefði aldrei mælst meiri hér á landi. Það má því ætla að það blási enn suðrænir vindar í hagkerfinu.
Höfundur er hagfræðingur.