Þungu fargi hefur verið létt af Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, þegar fréttir bárust af því að ekkert yrði af áformuðum kaupum Myllunnar-Ora á Gunnars Majónesi.
Sem kunnugt er þá á Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda hennar Mylluna-Ora en þau eru jafnframt stærstu eigendur útgerðarfélagsins Ísfélags Vestmannaeyja og ÍSAM. Vafalaust hafa Páll Gunnar og fleiri haft miklar áhyggjur af því að með kaupunum á Gunnars Majónesi væri Ísfélagið búið að tryggja sér yfirráð yfir aðfangakeðjunni sem þarf til við gerð karrísíldar og þar með komið með full yfirráð yfir þeim mikilvæga samkeppnismarkaði.
Sem kunnugt er fer mikil orka starfsmanna Samkeppniseftirlitsins í að fylgjast með majónesmarkaðnum og er 130 blaðsíðna skýrsla stofnunarinnar um þann markað, sem gefin var út þegar kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars voru stöðvuð, stundum verið kölluð Biblía feita fólksins.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom 17. júlí 2024.