Hrafnarnir fylgdust spenntir með fyrstu umræðu á Alþingi um frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, um hækkun á veiðigjöldum – eða „leiðréttinguna miklu“, eins og sannkristnir stjórnarliðar kjósa að kalla málið.

Ólíkt fyrri leiðréttingum, á borð við þá sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bauð upp á, virðist þessi sérstaklega hönnuð til að valda meiriháttar efnahagslegum skaða. Ekki að undra að hrafnarnir hafi fylgst grannt með umræðunum, sem stóðu langt fram á mánudagskvöld. Það vakti athygli þeirra hve litla sannfæringu þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar af landsbyggðinni virtust bera fyrir málinu. Í pontu höfðu þeir helst það hlutverk að lesa upp úr gömlum leiðurum Þórðar Snæs Júlíussonar í Kjarnanum og Heimildinni.

Juan Domingo Perón.
Juan Domingo Perón.

Einn þingmaður skar sig þó úr: Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, boðaði útflutningstolla á sjávarafurðir ef útgerðarfélög myndu bregðast við hækkun veiðigjalda með hagræðingu. Samfylkingin virðist því nú sækja sér efnahagslegan innblástur til perónista í Argentínu – og stjórnvalda í Tansaníu og Malaví.

Huginn og Muninn er einn föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill brtist fyrst í blaðinu sem kom út 7. maí 2025.