Kosningabaráttan er farin að taka á sig undarlegar myndir.

Nú telja systurmiðlarnir Heimildin og Ríkisútvarpið landsmönnum trú um að ísraelskir leyniþjónustumenn hafi setið fyrir syni Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Miklu var víst kostað til af erlendu flugumönnunum til að komast að því að Jón er hlynntur hvalveiðum, að hann þekki Kristján Loftsson og til standi að hefðbundin og lögmæt ákvörðun verði tekin um útgáfu leyfis til hvalveiða í matvælaráðuneytinu. Ísraelsku leyniþjónustumennirnir komust sem sagt að því sem er á vitorði allra þeirra sem fylgjast með íslenskum fjölmiðlum með því að setja á svið einhvern blekkingarleik gagnvart syni Jóns.

Sem fyrr segir þá er fullyrt í fjölmiðlum að hið dularfulla fyrirtæki Black Cube hafi aflað þessara upplýsinga fyrir „ónefnd alþjóðleg samtök“ eins og það er orðað í Heimildinni. Hrafnarnir geta ekki annað en dáðst að þjónustustiginu hjá þessu ísraelska leyniþjónustufyrirtæki. Það er ekki lengra síðan en 20. október að það lá fyrir að Jón tæki til starfa í matvælaráðuneytinu. Virðast Black Cube-menn ekki vera síður
snarir í snúningum en þeir sem starfa hjá Wolt. Rétt er að taka fram að þeir sem reka Black Cube eru ekki þeir sem reka pizzastaðinn Blackbox í Borgartúninu.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. nóvember 2024.