Hrafnarnir leggja ýmislegt á sig vegna starfa sinna. Þannig horfðu þeir á Silfrið í Ríkisútvarpinu í umsjón Sigríðar Hagalín Björnsdóttir á mánudag.

Einn gesta Sigríðar var Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og var umræðuefnið þær áskoranir sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir vegna tollastríðs Donalds Trump Bandaríkjaforseta.  Það var áhugavert að hlusta á bankastjórann sem sagði á óvissutímum væri rétt að einbeita sér að þeim hlutum sem hafa stjórn á og geta gert vel.

Nefndi hún sérstaklega sjávarútveginn og fiskeldi í því samhengi og nauðsyn þess að hlúa að útflutningsgreinunum sem skapa þjóðarbúinu gjaldeyristekjur. Því miður virðist ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hafa engan áhuga á því enda virðist erindi stjórnarinnar vera það eitt að hækka skatta á þessar greinar og draga þar með úr verðmætasköpun.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. apríl 2025.