Saga Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna í Kauphöll Íslands var meira og minna ein sorgarsaga. Félagið var oftar en ekki skiptimynt í valdabrölti viðskiptablokka og reksturinn leið fyrir það. Í kjölfar hrunsins hefur endurskipulagning fyrirtækisins, sem nú heitir Icelandic Group, þó heppnast vel, félagið er fjárhagslega sterkt alþjóðlegt matvælafyrirtæki og Óðinn hefur því álitið félagið happafeng fyrir Framtakssjóð Íslands.
Atburðarás undanfarinna vikna verður þó að teljast óheppileg fyrir sjóðinn. Tilkynnt var um kaup sjóðsins á eiganda 81% hlutafjár félagsins, Vestiu, 20. ágúst síðastliðinn. Sjóðurinn tók svo við félaginu 1. desember og skipaði því nýja stjórn á hluthafafundi 6. desember. Einungis fjórum dögum seinna, 10. desember, birtist frétt í IntraFish um að Framtakssjóðurinn ætti í viðræðum um sölu félagsins til evrópsks fjárfestingarsjóðs, Tritons.
Á þessum tíma var Framtakssjóður Íslands orðinn eigandi 81% hlutafjár félagsins. Jafnvel þótt íslenskir kaupsýslumenn hafi gjarnan gumað af skjótri ákvarðanatöku á Óðinn erfitt með að sjá að fulltrúar Framtakssjóðsins í stjórn Icelandic Group hafi getað verið búnir að gera sér það góða grein fyrir félaginu á þessum þremur til fjórum dögum að þeir hafi verið reiðubúnir að leggja það fyrir stjórn Framtakssjóðsins að rétt væri að selja félagið og að þessi tiltekni sjóður, Triton, væri sá aðili sem myndi gera hagstæðasta tilboðið.
Fyrirsvarsmenn sjóðsins hafa legið undir ámæli fyrir þennan gjörning en auðvitað er það ekki svo að þeir geti einir tekið þessa ákvörðun. Ákvörðun um sölu á jafn verðmætum eignarhlut og Icelandic Group hlýtur auðvitað að liggja hjá sjálfri stjórn hluthafans, Framtakssjóði, og það hlýtur að vera hennar að skýra hvernig mál þetta var unnið. Það eru lífeyrissjóðirnir, stærstu fjárfestar landsins með 1.960 milljarða eignir, sem standa að Framtakssjóðnum. Lífeyrissjóðirnir, sem starfa í umboði sjóðsfélaga, hafa mikilvægu hlutverki að gegna í endurreisninni. Þeim mun mikilvægara er að ákvarðanataka þeirra og verkferlar séu gagnsæir og hafnir yfir allan vafa – þótt vitanlega verði það alltaf þannig að menn geti greint á um að hvaða niðurstöðu er komist.
***
Miðað við síðasta milliuppgjör Icelandic Group frá 30. júní 2010 voru heildareignir félagsins 488 milljónir evra. Eigið fé félagsins var 166 milljónir og skuldir 322 milljónir evra, þar af voru langtímaskuldir 106 milljónir, skattskuldbinding 13 milljónir og skammtímaskuldir 204 milljónir. Ef litið er á eignahlið efnahagsreikningsins sést að veltufjármunir eru 310 milljónir evra og skattainneign 7 milljónir evra. Nettóskuldir félagsins eru því hverfandi.
Hagnaður Icelandic Group fyrir afskriftir (EBITDA) nam 26 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 en var 22 milljónir evra á sama tíma árið áður og 46 milljónir evra fyrir allt árið 2009. Að því gefnu að rekstrarbati félagsins sé hlutfallslega jafn mikill á seinni hluta ársins í fyrra og á þeim fyrri, er hægt að gera ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir allt árið 2010 hafi numið 55 milljónum evra.
Óðinn fær því ekki séð að tilboð kanadíska matvælafyrirtækisins High Liner Foods, sem auglýst var á forsíðu Fréttablaðsins í síðustu viku, 170 milljónir evra fyrir hlutafé nær skuldlauss félags, geti talist ásættanlegt.
Telji Framtakssjóðurinn rétt að selja hlut sinn í Icelandic Group hlýtur hann að leita hagstæðustu tilboða í hlut sinn í félaginu.
***
Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var Már Guðmundsson seðlabankastjóri spurður hvers vegna fimm sparisjóðir auk Spkef hafi verið endurreistir. Már svaraði því meðal annars á þessa leið:
„Einnig var það talið mikilvægt að varðveita einhverja sparisjóði þar sem annars er hætt við að fjármálakerfið verði áhættusamara en ella vegna fábreytni, en því ólíkari sem starfsgrundvöllur og viðskiptalíkan fjármálastofnana eru því ólíkari verður áhættumynstur þeirra að öðru óbreyttu. Þá liggur það í eðli sparisjóða að fari þeir í gjaldþrot eru líkurnar á að nýir rísi minni en í tilfelli hlutafélagabanka þar sem hin staðbundna taug brestur.“
Óðni varð hugsað til þeirra orða Samuels Johnson að hjónaband númer tvö væri sigur vonarinnar á reynslunni. Það er ekkert sem gefur tilefni til að ætla af rekstri sparisjóða á Íslandi undanfarin ár að þeir taki öðruvísi og enn síður minni áhættu en bankar. Viðskiptalíkan banka og sparisjóða á Íslandi í dag er að taka við innlánum á grundvelli innstæðutryggingar; þegar tapsáhætta og hagnaðarvon fara ekki saman er ekki við öðru að búast en að fjármálafyrirtækin taki meiri áhættu en hagkvæmt er.
Seðlabankinn hefur lýst þeirri skoðun sinni að ekki sé ráðlegt að losa gjaldeyrishöftin á meðan bankakerfið er ekki sjálfbært, því skýtur það skökku við að Seðlabankinn skuli vinna gegn hagræðingu í kerfinu með því að standa gegn eðlilegri grisjun í kerfinu. Það eru heldur ekki boðleg rök að nauðsynlegt sé að standa í vegi fyrir því að fyrirtæki hverfi af markaði vegna þess að torvelt sé að stofna ný, því það að ríkið hlaupi undir bagga með óhagkvæmum fyrirtækjum og heldur þeim gangandi kemur einnig í veg fyrir að nýir aðilar geti haslað sér völl á markaðnum. Ríkið er með öðrum orðum að skekkja samkeppnisstöðuna með því að niðurgreiða óhagkvæman rekstur.
Óðinn hefði getað átt von á þessu svari frá stjórnmálamanni sem vill standa vörð um sparisjóð í heimabyggð, en ekki sjálfstæðum seðlabanka.