Popúlismi hefur ráðið ríkjum á Íslandi síðustu ár. Ríkisstjórnarsamstarf sem sérhæfir sig í auknum útgjöldum svo sem þjóðarhöll, mannréttindastofnunum, innflutningi á úkraínskum gæludýrum og hærri listamannalaunum er fyrirkomulag sem gengur ekki upp.

Okkar sameiginlegi sjóður hefur verið rekinn með halla í sex ár í röð og það sjöunda framundan. Stjórnmálamenn virðast ætla að ganga lengra í þessa átt fyrir komandi kosningar þar sem framboð eru farin að leita að vinsælum loforðum. Allt skal gert fyrir alla. Allt fyrir vinsældir.

Núna í aðdraganda kosninga vil ég kalla eftir ábyrgð. Ég kalla eftir óvinsælum loforðum. Loforðum sem flytja ekki vinsældir dagsins í dag yfir á skuldir framtíðarinnar. Ég kalla eftir aðgerðum sem skila sér í hagsæld fyrir venjulega Íslendinginn. Íslendinginn sem vill halda meiri eftir af eigin launum. Íslendinginn sem er ekki á opinberu framfæri. Íslendinginn sem er ekki til í að flytja kostnað dagsins í dag yfir á börnin sín.

Þarf að minnka ríkisvaldið

Háir vextir og efnahagslegar sveiflur hafa verið í brennidepli, og spurningin sem margir kjósendur þurfa að íhuga er hvort komandi ríkisstjórn geti starfað með nægjanlegri skilvirkni til að takast á við þessar áskoranir.

Núna eftir hömlulausan vöxt ríkisins þarf að hagræða í ríkisrekstri. Það þarf að minnka ríkisvaldið. Gera það liprara og skilvirkara þannig að það kosti minna og leiði til aukinnar framleiðslu á verðmætum. Þannig, og eingöngu þannig, tryggjum við almenna velferð. Ég trúi því að það sé ekki mikið flóknara en þetta að tryggja efnahagslegan stöðugleika landsins á næstu árum.

Á tímum efnahagslegra sveiflna er skilvirk stjórnun grundvöllur árangurs, þetta á við um einkafyrirtæki alveg eins og þau ríkisreknu. Ef horft er út í heim, þá hafa stóru fyrirtækin skorið óspart niður starfsmannakostnað síðustu ár með það að markmiði að auka framlegð og geta haldið áfram í markaðssókn í niðursveiflu í hagkerfinu.

Ekki verður hér kvartað undan árangri einkaframtaksins á Íslandi. Starfsfólki þar hefur aðeins fjölgað um tæp 30% frá aldamótum en landsframleiðsla aukist um næstum 100% að raunvirði á sama tíma.

Með öðrum orðum hefur einkageiranum tekist að auka framleiðni og skapa meiri verðmæti á hverja vinnustund. Aftur á móti hefur starfsfólki hjá hinu opinbera fjölgað um 60% yfir sama tímabil. Árangurinn eru lengri biðlistar í heilbrigðiskerfinu, lakari geta skólabarna, orkuskortur og lengi má áfram telja.

Aðhald í útgjöldum

Það er ekki skemmtilegt að taka til eftir partý sem fer úr böndunum. Það er skemmtilegra að lofa bara nýju partýi næstu helgi. Það er ekki skemmtilegt að veita aðhald í rekstri. Það er skemmtilegra að lofa nýjum útgjöldum.

Ég kalla því eftir flokki sem lofar því sem er ekki skemmtilegt. Flokki sem lofar aðhaldi í útgjöldum. Flokki sem ætlar ekki að ganga lengra í að flytja byrðar dagsins í dag yfir á komandi kynslóðir. Ég bið stjórnmálafólk um að lofa mér leiðinlegu.

Nökkvi Dan Elliðason er stærðfræðingur og fjármálastjóri.