Í liðinni viku var efnt til fundar í Háskóla Íslands um loftslagskvíða og hvernig mætti lifa með honum.
Umfjöllunarefnið kemur ekki á óvart. Það er augljóst að loftslagsvandinn er vandi – og á honum þarf að taka. Óvissan um það hvernig það verði gert og hvort það takist kemur vafalaust illa við einhverja. Hún veldur kvíða.
Stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Samdráttur í losun á gróðurhúsalofttegundum á að ná 55% fyrir árið 2030, miðað við árið 2005. Það er hins vegar enn á huldu, hvernig varða á leiðina að þessu markmiði. Það virðist því miður hafa gripið um sig einhvers konar loftslagsverkkvíði. Verkefnið virðist stjónvöldum svo ofvaxið og markmiðið svo himinhátt, að stjórnvöldum einfaldlega fallast hendur.
Og þegar stjórnvöldum fallast hendur, þá er stefið því miður þekkt. Þá eru skipaðar nefndir, skrifaðar skýrslur, hnoðað í viljayfirlýsingar, blásið til samráðsvettvangs, grænvangs, loftslagsráðs og boðað til blaðamannafunda. Á meðan eru engar ákvarðanir teknar og engir steinar lagðir á vörður í átt að hinu mikilvæga markmiði.
Loftslagsverkkvíðin er því miður heimsfaraldur.
Íslensk stjórnvöld eru ekki einsdæmi. Loftslagsverkkvíðin er því miður heimsfaraldur. Stjórnvöldum hættir nefnilega til að vilja stýra öllum athöfnum manna, helst nákvæmlega. Það veit ekki á gott þegar loftslagsvandinn er annars vegar, vegna þess að lausnirnar eru í fæstum tilvikum komnar fram.
Stjórnvöld verða að einbeita sér að jarðveginum – að hvata einstaklinga og fyrirtæki til að leggja af stað út í óvissuna, í von um að finna lausn og ná árangri. Það þarf að létta á löggjöf, veita auknu súrefni í lungu einstaklinga og byr í segl fyrirtækja. Sumt mun heppnast, annað ekki, eins og gengur. Eitt er hins vegar öruggt; ef áherslan liggur í því að skrifa skýrslur og sitja fundi, þá mun ekkert gerast og loftslagsverkkvíðinn tekur öll völd.
Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar 2023.