Það er stundum sagt um þá sem stóðu í hringiðu efnahagshrunsins að þeir geti ekki horfst í augu við eigin ábyrgð. Það má sosum líka segja um fleiri.

Ég las nýverið tólftu bókina í ritröðinni Vinjettur eftir Ármann Reynisson sem fjallar um fjármálafyrirtækið Ávöxtun sem hann kom á laggirnar ungur að árum árið 1983 við aðstæður sem erfitt er að lýsa fyrir yngra fólki, en þeir sem eldri eru en tvævetur ættu að muna.

Þótt Ármann æmti yfir því sem hann telur óréttláta meðferð flokkspólitískra afla gegn því sem hann kallar frumkvöðlastarf í fjármálageiranum og vondan frænda sem gerir honum illt kallaði hann ekki fram samúð í huga mér. Það var ekki yfirlætislegur tónninn í annars óþroskaðri frásögninni sem olli því, allar veislurnar á franska vísu sem hann lýsir í þaula, tónleikarnir og myndlistasýningarnar sem hann fór á og annað í þeim dúr að viðbættri þeirri staðreynd að hann lét undir höfuð leggjast að hlýða tilmælum fjármálayfirvala um nokkurra ára skeið.

Nei, það var frjálsleg meðferð Ármanns á sannleikanum. Ekki aðeins blekkingin sem hann vefur um sjálfan sig, heldur sá veruleiki sem hann býður lesendum. Tilraun hans til að koma tugum málverka undan mánuði fyrir gjaldþrot í kringum 1988 er afgreitt á léttvægan hátt eins og annað. Í sögunni segir m.a. að til hafi staðið um það leyti sem Ávöxtun féll að mála hús Ármanns. Þegar róstursamt varð í kringum það flutti hann verkin í geymslu hjá listfengu vinafólki. Fyrir dómi sagði Ármann hins vegar ástæðu flutningsins ótta við innbrot og skemmdarverk í kjölfar hótana.

Í hvorugt skiptið sá hann þetta sem tilraun til undanskots — og gerir lítið úr skiptastjóranum.

Það var einmitt þetta litla atriði í bókinni stuttu sem truflaði mig og leiddi til þess að ég dýfði tá ofan í málið og fór m.a. yfir fréttir af aðalmeðferð Ávöxtunarmálsins fyrir Sakadómi Reykjavíkur árið 1991, þremur árum eftir að starfsemi fyrirtækisins var stöðvuð með tilheyrandi afleiðingum fyrir viðskiptavini þess. Þar var dregin upp önnur mynd af hlut Ármanns og Ávöxtunar í íslensku fjármálalífi.

Höfundur Jón Aðalsteinn Bergsveinsson.

Pistill Jóns birtist í Viðskiptablaðinu 25. október 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.