Í júní 2021 sótti Landsvirkjun um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun eftir 20 ára vandaða undirbúningsvinnu. Það er bókstaflega búið að snúa við hverjum steini og sömu stofnanirnar búnar að gefa umsagnir aftur og aftur í löngu leyfisveitingaferlinu. Markmiðið var þá að virkjunin yrði gangsett árið 2026.

Langan tíma tók að afgreiða virkjunarleyfið eða eitt og hálft ár. Síðan hefur það tvisvar verið fellt úr gildi vegna ágalla á málsmeðferð stjórnvalda og er núna í uppnámi eftir síðustu vendingar.

Hvernig komum við okkur í þessa stöðu?

Íslenska raforkukerfið er einstakt í heiminum. Okkur tókst að byggja kerfið okkar svona upp með góðum ákvörðunum í fortíðinni, mikilli elju og framsýni þeirra sem á undan okkur gengu.

Nú erum við komin í þá stöðu að raforkukerfið er fullnýtt og ekki von á neinni viðbót í nánustu framtíð. Vindorkuverið við Vaðöldu (Búrfellslundur) kemst vonandi í gang á árunum 2026 og 2027 og ætlun okkar var að gangsetja Hvammsvirkjun síðla árs 2029 - en nú getur verið að það verði ekki fyrr en á næsta áratug. Það er því mjög mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í þessa atburðarás til þess að ekki verði frekari seinkanir sem leiða af sér enn meira tjón fyrir samfélagið.

Við höfum sem sagt sjálf komið okkur í þessa stöðu með því að tryggja ekki framgang nýrra virkjana á eðlilegum tíma og beinlínis röngum ákvörðunum á síðustu árum.

Aðgengi að orku er lykilatriði

Þessi staða hefur mjög neikvæð áhrif á samfélag eins og okkar, sem er í stöðugum vexti. Almenni markaðurinn vex um 10-15 MW á ári og mörg áhugaverð útflutningsfyrirtæki í fjölbreyttum iðnaði vilja taka til starfa en geta það ekki vegna þess að það er engin orka í boði fyrir þau. Þetta leiðir til stöðnunar og svo hnignunar og samdráttar ef ekkert er að gert.

Síðasta áratug höfum við stöðugt bent á mikilvægi áframhaldandi orkuuppbyggingar til að tryggja vöxt samfélagsins og orkuskipti. Ábyrgð þeirra sem töfðu þessi verkefni með villandi upplýsingum er mikil.

Öflug uppbygging – ef kerfið leyfir

Landsvirkjun er orkufyrirtæki þjóðarinnar og tekur alvarlega þá ábyrgð sem því fylgir. Hjá okkur er öflug uppbygging fram undan ef kerfið leyfir. Fyrir utan Hvammsvirkjun og vindorkuverið við Vaðöldu verður Sigölduvirkjun stækkuð um eina vél og Þeistareykjavirkjun sömuleiðis, auk þess sem toppþrýstingur virkjunarinnar verður virkjaður til að nýta gufuna enn betur. Samtals eru þetta um 1,5-2 TWst sem komast vonandi í rekstur á næstu fimm árum hjá okkur.

Næsti áratugur í rammaáætlun

Nú þurfa stjórnvöld líka að horfa til þess hvaða verkefni taka við eftir þennan kafla. Hvaða virkjanir koma inn til að mæta orkuþörf næstu 10 ára, en hún er áætluð um 5 TWst eða 3-3,5 Twst til viðbótar við þau verkefni sem eru að hefjast hjá Landsvirkjun. Það er vissulega ærið verkefni en vel framkvæmanlegt.

Til þess að þetta gangi eftir þarf að fjölga kostum í nýtingarflokki rammaáætlunar og horfa þar einkum til vatnsafls- og jarðvarmakosta á Suðurlandi sem reynst hafa vel, eru yfirleitt hagkvæmastir og njóta mikils stuðnings í samfélaginu. Sömuleiðis vindorkukosta, en höfum í huga að eftirspurnin er einkum á Suður- og Suðvesturlandi og flutningskerfið annar sem stendur ekki flutningi á milli landshluta og litlar líkar á því að það breytist að neinu marki fyrir 2035. Nauðsynlegt er að allir þeir kostir sem eiga að komast í rekstur á næsta áratug, séu komnir í nýtingarflokk rammaáætlunar síðar á þessu ári.

Á sama tíma þarf að leggja mat á orkuþörf samfélagsins til a.m.k. næstu 25 ára og taka ekki ákvarðanir um útilokun kosta sem samfélagið mun þurfa. Í raun þurfa rannsóknir og undirbúningur þeirra að hefjast sem fyrst. Ég endurtek því: Aðgengi að orku er lykillinn að velsæld og tryggir þannig áframhaldandi góð lífskjör næstu kynslóða.