Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við regluvörð Rapyd og sakaði hann um að reyna að hafa áhrif á lýðræðislega umræðu.
Kvaðst hún aldrei hafa lent í öðru eins og sagði stjórnmálamenn verða að geta viðrað skoðanir sínar opinberlega án þess að þeim standi hætta á því að fá slík skilaboð.
Þegar leitað var viðbragða regluvarðarins kom þó í ljós að hann hafi unnið sér það eitt til saka að leiðrétta rangfærslur þingmannsins, sem hafði í fullyrt að Rapyd Europe sé ísraelskt fyrirtæki meðan hið rétta er að fyrirtækið er íslenskt og starfar einungis hér á landi en ekki í Ísrael.
Greinilegt er að þingmaðurinn hefur ekki lent í miklum mótbyr í lífinu ef árétting í tölvupósti frá starfsmanni greiðslumiðlunarfyrirtækis er það rosalegasta sem hún hefur upplifað – lítilla sanda, lítilla sæva og allt það sem stendur í Hávamálum.
Að auki benti regluvörðurinn á að Dagbjört hafi ranglega tengt Rapyd við stríðsrekstur Ísraels, sem séu alvarlegar ásakanir sem hafi ekkert með raunveruleika fyrirtækisins að gera.
Hrafnarnir vona að þingmaðurinn beri þess bætur að vera leiðréttur með þessum hætti og að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það dirfist til að leiðrétta fulltrúa löggjafarvaldsins.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.