Hrafnarnir lásu um það í Heimildinni að stofnuð hafi verið samtökin Læknar með loftslagskvíða. Hjalti Már Björnsson bráðalæknir og Halldóra Jónsdóttir geðlæknir eru hvatamenn að stofnun samtakanna. Hrafnarnir hafa lengi fylgst með Hjalta Má en hann hefur verið ötull baráttumaður gegn því að Íslendingar hafi gaman af lífinu. Í stuttu máli er baráttumál samtakanna að lýðræði verði afnumið á Íslandi og öll völd sett í hendur fólks með B.A gráðu í umhverfisfræðum frá Háskóla Íslands sem á svo að stýra komum ferðamanna, kjötáti og fleiri þáttum þar til að læknunum finnst hitastigið orðið mátulegt.

Hrafnarnir vonast nú eftir því að samtökin Löggildir rennismiðir gegn verðbólgu verði stofnuð og krefjist þess að hagfræðingar sem aðhyllast peningamagnskenningu taki öll völd í þjóðfélaginu þar til að verðbólgan verði komin í markmið Seðlabankans.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 16. mars 2023.