Ég fór einu sinni á sjó með loðnuskipi. Veiðiferðin dróst á langinn, aflabrögð voru treg. Þótt enginn segði neitt þóttist ég vita að nærvera mín hefði eitthvað með gæftaleysið að gera. Sumt er best sagt með þögninni.
https://www.vb.is/tbl/33/29/Ég hef reynt annars konar veiðiskap, laxveiði, í góðra vina hópi. Það er ekkert leyndarmál að afrek mín á árbökkum Íslands eru síst betri en þegar ég fór á loðnuna hér um árið. Þrátt fyrir að hafa farið í allnokkrar veiðitúra, vopnuð flugustöng og jafnvel leiðsögumanni, hefur árbúinn ekki gefið sig. Ég hélt reyndar að hann myndi sýna sig í sumar; ég setti í´ann, en upp vildi hann ekki.
Kannski að hann hefði gefið sig hefði hann vitað að ég ætlaði mér alltaf að sleppa honum aftur, eins og nú tíðkast. Ég borða því ekki villtan lax, þegar ég borða lax, heldur eldislax. Fyrr nokkrum árum þegar laxeldi var að komast aftur á koppinn á Íslandi, eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir, létu margir áhyggjur í ljós um að eldislax myndi sleppa úr kvíum. Því væri skammt að bíða þess að íslenski laxastofninn myndi þurrkast úr vegna erfðablöndunar.
Fréttir af því bárust í sumar að 1 – einn – eldislax hefði veiðst á stöng í laxveiðiá og var vitnað í skýrslu Hafró því til staðfestingar. Reyndar er óvíst að laxinn sé úr íslensku eldi. Hvort sem það er nú rétt eða rangt, er það miður að eldislax veiðist í íslenskri laxveiðiá.
Þegar horft er til efnahagslegra áhrifa af laxeldi kemur í ljós að útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmum 36 milljörðum króna á árinu 2021 og hefur aldrei verið meira. Fiskleysi mitt er ekki laxeldi um að kenna, þar eru aðrir kraftar að verki. Það er verkefni næsta sumars að finna úr út því.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 18. ágúst 2022.