Mér hefur verið tíðrætt um rammaáætlun og neikvæð áhrif hennar á græna raforku en rammaáætlun er ein aðalorsök þess að mjög erfiðlega gengur að fá leyfi til að byggja slíka tegund raforkuframleiðslu.
Á sama tíma hefur það væntanlega ekki farið framhjá landsmönnum að Ísland hefur þurft að þola raforkuskort undanfarna þrjá vetur. Áætlanir eru um að þjóðhagslegur kostnaður sé kominn í um 22-27 milljarða króna nú þegar og ekki sér fyrir endann á orkuskortinum sem gæti varað í mörg ár enn, í 5 ár í viðbót segir Landsnet. Samanlagt tap þjóðarinnar þessi ár gæti því hlaupið á um 82-112 milljörðum króna yfir þennan tíma ef miðað er við þjóðhagslegt tap undanfarinna ára.
Til að setja þetta tap í samhengi þá er þetta jafnvirði aflaverðmætis allra frystitogara Íslands í 2 til 3 ár (aflaverðmætið 2023 var 39 milljarðar, heimild: aflafrettir.is). Þetta jafngildir því að allir frystitogarar íslendinga færu úr landi í 2-3 ár.
Til að bíta höfuðið af skömminni þá gengur þessi þróun þvert gegn lögbundnum markmiðum um loftslagsmarkmið. Ef þau markmið nást ekki mun þjóðin þurfa að borga sektir þar til þau nást. Sektirnar geta numið 1 til 10 milljörðum á hverju ári (heimild: ræða umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra).
Bæta í í stað þess að draga úr
Nú stendur til að auka enn á umsvif rammaáætlunar með breytingum á lögum um rammaáætlun sem nú á einnig að fanga vindorku undir þessa mestu blýhúðun löggjafarinnar. Sú öfugsnúna framþróun í þessu máli veldur áhyggjum. Í stað þess að afnema blýhúðunina er verið að bæta í.
Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er rætt um flýtimeðferð vindorku í gegnum rammaáætlun. Í grein í Viðskiptablaðinu 10. mars 2024 færi ég rök fyrir að flýtimeðferðin muni taka allt að 17 árum. Er hægt að kalla það flýtimeðferð?
Það er löngu tímabært að fella þessa mestu blýhúðun löggjafarinnar niður og taka upp einfaldara og skilvirkara kerfi. ESB er með áform um að leyfi til grænnar orku taki ekki lengri tíma en 2 ár. Þá hefur Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor í auðlindafræði sett fram tillögu sem gengur ögn lengra um 1 leyfi fyrir græna orku sem tekur 1 ár að sækja.
Hvaðan á raforkan að koma?
Rammaáætlun:
- Tekur 16-23 ár að svarar einni spurningu, hvort friða eigi land eða nýta það til grænnar orku.
- Tefur uppbyggingu grænnar orku um 16-23 ár sem var meðaltími verkefna sem hlutu afgreiðslu í ramma 3.
- Skerðir réttindi einkaaðila til að nota land sitt til að skapa eigin atvinnu en slík skerðing gæti kostað ríkissjóð tugi milljarða í bætur á ári hverju.
- Eykur á friðun lands en í dag er þegar búið að friða um 36% af Íslandi og stefnir í 50%, en á sama tíma er allt fótspor grænnar raforkuframleiðslu um 0.6%. Ekki má nýta friðað land til grænnar raforku.
- Önnur lög tryggja gæði umhverfisins betur t.d. lög um mat á umhverfisáhrifum.
Bent hefur verið á að auðveldara er að byggja orkuver sem notar svarta díselolíu til að framleiða orku heldur en orkuver sem framleiða græna orku. Dæmi er um að slíkt verkefni tók aðeins 2 ár frá hugmynd til framleiðslu raforku. Til samanburðar þá taka verkefni í grænni raforku 20 til 30 ár í núverandi blýhúðuðu kerfi.
Hvaðan eiga framtíðarkynslóðir þá að fá raforku þegar búið verður að friða 50% af Íslandi eða þeim mun meira? Er verið að þvinga framtíðarkynslóðir yfir í svarta díselorku?
Lokaorð
Hér í eina tíð voru vextir ákveðnir af Alþingi með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina. Það verklag er fyrir löngu aflagt.
Er ekki kominn tími til að færa græna raforku frá Alþingi með því að fella niður rammaáætlun og afnema þannig mestu blýhúðun löggjafarinnar til að koma í veg fyrir stórtjón þjóðarinnar og loftslagsslys?
Höfundur er framkvæmdastjóri StormOrku.