Þann 23. október sl. kom út skýrsla fjármálaráðuneytisins sem ber heitið: Innflutningur landbúnaðarvara frá Evrópusambandinu til Íslands: Greining á misræmi milli gagna Evrópusambandsins og Íslands. Útgáfu skýrslunnar ber að fagna og hún staðfestir að misræmi er til staðar milli Íslands og ESB við skráningu inn- og útflutningstalna á vörum til Íslands.

Misræmi við innflutning á kjúklingi

Misræmi greinist í tölum fyrir unnið fryst kjúklingakjöt (undirlið 160232). Mun meira magn er skráð flutt út frá ESB til Íslands og er það talið geta stafað af misflokkun milli kafla, þ.e. að varan sé skráð í undirlið 020714 (kjúklingakjöt fryst) við innflutning til landsins.

Skýrsluhöfundar benda á að vegna mismunandi tollkjara í 2. kafla og 16. kafla getur falist fjárhagslegur ávinningur fyrir innflytjanda af því að flokka vörur frekar í 2. kafla. Við þetta er því að bæta að einnig er mörg hundruð tonna tollkvóti frá ESB fyrir kjúklingakjöt og því getur ávinningur af misflokkun einnig falist í að nota úthlutaðan tollkvóta til að njóta betri kjara við innflutning.

Misræmi við innflutning á mjólkur- og undanrennudufti

Í skýrslunni er einnig staðfest að verulegt misræmi er að finna á bragðbættu mjólkur- og undanrennudufti (undirlið 040299). Mun meira magn, jafnvel hundruðir tonna, er flutt út frá ESB en inn til Íslands. Skýrsluhöfundar finna enga skýringu á hvað verður um mjólkurduftið en telja verður ástæðu til að rannsaka það til hlítar.

Til þess hefur Skatturinn tiltekin úrræði í samstarfi við tollayfirvöld í útflutningslandi. Þess ber þó að geta að misræmið var enn til staðar á árinu 2022 (samantektin í skýrslunni nær aðeins til ársins 2021) en þá voru t.d. flutt inn 34 tonn af vörum í vörulið 0402 samkvæmt tölum Hagstofunnar (allt mjólkur- og undanrennuduft) en 212,5 tonn voru skráð flutt út frá ESB til Íslands.

Tillögur til úrbóta

Í skýrslu starfshópsins eru lagðar fram nokkrar tillögur til úrbóta að bæta úr öryggi gagna. Sumar tillögur eru góðar en aðrar ekki. Ein tillaga starfshópsins felst t.d. í því að kanna möguleika þess „að Skattinum verði gert kleift að nálgast innflytjendur og útflytjendur óformlega í uppbyggilegum tilgangi til að bæta gæði og skil tollskýrslna.“ Þessi nálgun orkar mjög tvímælis og verður að teljast mjög sérstök.

Samkvæmt tollalögum hvílir sú skylda á innflytjendum að færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrár. Leiki vafi á um tollflokkun vöru eða óski inn- eða útflytjandi eftir staðfestingu tollyfirvalda á tollflokkun vöru getur hann leitað eftir bindandi áliti tollyfirvalda á tollflokkun vörunnar, sbr. 21. gr. tollalaga. Þannig eru lögin skýr um hvaða skyldur hvíli á innflytjendum við innflutning vara til landsins og engin þörf á því að Skatturinn fái heimild til að „nálgast innflytjendur og útflytjendur óformlega í uppbyggilegum tilgangi…“. Verður sambærileg heimild innleidd við skattskil einstaklinga og fyrirtækja?

Markar ákveðin þáttaskil

Við lestur skýrslunnar verður ljós nauðsyn þess að bæta tollframkvæmd. Að mati greinarhöfundar er mikilvægt að tollyfirvöld birti opinberlega þau bindandi álit sem út eru gefin. Það hefur ekki verið gert en telja verður að tollyfirvöldum beri skylda til þess, sbr. t.d. X. gr. GATT samningsins frá 1994. Slík birting myndi leiða annars vegar til þess að meiri kröfur væru gerðar til framlagningar gagna með umsóknum um bindandi álit og hins vegar auka upplýsingagjöf til innflytjenda varðandi það hvernig tollflokka ætti einstakar vörur. Ríki sem Ísland ber sig iðulega saman við birta opinberlega bindandi álit, einnig til uppruna vöru sem getur ráðið miklu um tollakjör, til að tryggja réttaröryggi við innflutning.

Óhætt er að fullyrða að útgáfa skýrslunnar markar ákveðin þáttaskil. Mikilvægt er að draga lærdóm af því sem þar kemur fram – þó víst sé að verkefninu er síður en svo lokið.