Algengt er að nýbakaðir ráðherrar geri víðreist á fyrstu dögum sínum í starfi. Allir sem fylgjast með alvarlegri stöðu í menntamálum íslenskra ungmenna vita að lausnina á þeim vanda er helst að finna á Balkanskaga og því var það fyrsta embættisverk Ásthildar Lóu Þórsdóttur barna- og menntamálaráðherra að fljúga til fundar við króatíska ræðismann Íslands í Zagreb.
Svo heppilega vildi til að ráðherrann náði að sjá tvo leiki með íslenska handboltalandsliðinu í leiðinni.
Alma Möller, eða Wuhan Möller eins og sprellikerlingarnar Ólöf Skaftadóttir og Kristín Gunnarsdóttir í hlaðvarpinu Komið gott kalla hana, ákvað að stimpla sig inn með því að heimsækja Landspítalann og láta mynda sig með andlitsgrímur bak og fyrir og birta á vef ráðuneytisins. Vafalaust rifjar það upp margar góðar minningar meðal landsmanna og sendir auðvitað skýr skilaboð hvert Alma stefnir í ráðherratíð sinni.
Þá tók Alma hús á Sigurði H. Helgasyni forstjóra Sjúkratrygginga í vikunni. Þau hafa vafalaust haft mikið um að ræða en sem kunnugt er þá hefur Samkeppniseftirlitið til athugunar hvernig embætti landlæknis og Sjúkratryggingar hafa komið upp samkeppnishindrunum og hvernig var staðið að samningum um hugbúnað sem ríkið keypti fyrir milljarða af skattfé borgaranna
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. janúar 2025.