Er fréttir af málefnum Ásthildar Lóu Þórsdóttur komust í hámæli fór strax um Ragnar Þór Ingólfsson, sjóðstjóra eigin neyðarsjóðs.
Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, eiginkona Ragnars Þórs, var aðstoðarmaður Ásthildar Lóu og afsögn ráðherrans setti því framtíð hennar í óvissu. Ragnar Þór þótti einn þeirra sem væri hvað líklegastur til að fylla í skarðið sem mennta- og barnamálaráðherra.
Þó að Flokkur fólksins sé þekktur fyrir að gera vel við sína hefði varla verið gengið svo langt að láta eiginkonu aðstoða eiginmann sinn við ráðherrastörf. Hefði Guðbjörg því væntanlega þurft að víkja og um leið skapast þörf til að ganga á neyðarsjóðinn.
Guðmundur Ingi Kristinsson hreppti aftur á móti hnossið og á þriðjudag var loks staðfest að Guðbjörg myndi halda starfi sínu. Þar með varð ljóst að ekki þarf að ganga á sjóðinn og milljónirnar tíu fá áfram að liggja inn á reikningi sem ber að mati sjóðstjórans alltof háa innlánsvexti.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.