Þótt Óðinn búist enn við hraðri lækkun innlendrar verðbólgu með lækkun fasteignaverðs þá er ekkert enn í hagtölunum sem bendir til þess. Því gat Seðlabankinn ekki gert annað en hækkað vexti.
Forysta verkalýðsfélaganna brjálaðist yfir hækkuninni og Vilhjálmur Birgisson var ómyrkur í máli í samtali við mbl.is.
„Það er algjörlega með ólíkindum að Seðlabankinn skuli voga sér að senda þau skilaboð út á meðan við sitjum hér einbeitt í að reyna að ná kjarasamningum og ná niður verðbólgu og vöxtum að við skulum þá fá þessa rennandi blautu tusku framan í andlitið frá þessum egóistum upp í Seðlabanka.“
„Það er með ólíkindum að þeir skuli voga sér að gera þetta. Þeir eru nú þegar búnir að þurrka upp allan ávinninginn af því sem við gerðum 2019 og þeir halda þessari skemmdarverkastarfsemi áfram.“
Það er ekki heil brú í málflutningi Vilhjálms. Hann og aðrir í verkalýðshreyfingunni sitja á samningafundum og krefjast galinna launahækkana. Hækkana sem munu valda verðbólgu og hærri vöxtum.
Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 24. nóvember 2022.