Árið 2023 var ekki ár sem við viljum sérstaklega muna. Lausatök í efnahagsmálum, sérstaklega hjá ríki og sveitarfélögum, og launahækkanir sem hvergi þekkjast í heiminum, framkölluðu meiri verðbólgu en við höfum kynnst í rúman áratug. Þá hrundi hins vegar stór hluti viðskiptalífsins til grunna ásamt bankakerfinu, krónan sömuleiðis og verðbólgan fór í um 20%. Varla getum við borið ástandið þá saman við það sem er núna.
Á tímamótum sem áramótum hljótum við að velta fyrir okkur hvort ástæða er til bjartsýni eða svartsýni á nýju ári. Óðinn sér ekki nokkra ástæðu til sérstakrar bjartsýni. Vissulega er bjart yfir mörgum þáttum efnahagslífsins, sérstaklega viðskiptalífsins, en fjármál ríkisins og stærstu sveitarfélaga munu valda hér hærri verðbólgu lengur en nokkur efni stóðu til.
Sönnun þess að opinber útgjöld eru stjórnlaus á Íslandi eru nýlegar tölur frá Hagstofunni. Þar kemur fram að einkaneysla hafi dregist saman að raunvirði um 1,7% í samanburði við þriðja ársfjórðung 2022. Hins vegar hafi samneysla aukist um 2,3% að raunvirði.
***
Stærsti vandinn í opinberum rekstri í dag er sá, að hinir svokölluðu sérfræðingar hins opinbera eru í síauknum mæli látnir taka ákvarðanir sem áður þótti rétt að væru teknar af ráðherrum, þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum. Þessir sérfræðingar eru allir algjörlega ábyrgðarlausir.
Helsti kosturinn við núverandi stjórnmálastétt er að hana má kjósa í burtu í kosningum. Sumir myndu segja að það sé eini kosturinn við hana.
Embættismannastéttin, sem er alltof stór í samanburði við stærð landsins, situr hins vegar fastast sama hverjar gloríurnar eru. Að auki er embættismannastéttin sjálfala, án nokkurs aðhalds ráðherra eða þings. Ágætt dæmi er orkumálastjórinn – gagnslaus í þeim verkum sem hann á að sjá um – en tekur upp á því að fara í opinbera heimsókn til Argentínu fimm mínútum fyrir stjórnarskipti. Hvað í fjáranum á fundur í Argentínu að breyta í orkumálum á Íslandi? Auðvitað ekki nokkru. Þetta var auðvitað ekkert annað en skemmtiferð orkumálastjórans til framandi lands á kostnað skattgreiðenda.
Viðbrögð yfirboðarans, orkumálaráðherrans, við Argentínuferðinni, þessum sem hélt í misskilningi sínum að hann ætti eitthvert erindi að gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum, voru þau sömu og allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar embættismennirnir misnota stöðu sína. Þau voru engin.
Auðvitað vegna þess að sá ráðherra hefur farið í fleiri tilgangslausar ferðir í ráðherratíð sinni en flestir – og eru þá meðtaldar ferðir Gunnars Braga pulsusala úr Skagafirði til Úkraínu forðum.
***
Það kæmi Óðni ekki á óvart að formannsskipti yrðu í Sjálfstæðisflokknum á nýju ári. Það hafa verið ótal ástæður fyrir því að Bjarni Benediktsson hefði átt að yfirgefa fjármálaráðuneytið. Stóraukin ríkisútgjöld, stórfelldur hallarekstur, næstum hæstu skattar í heimi, fráleitar launahækkanir hjá ríki, misheppnuð stytting vinnuvikunnar og svo mætti endalaust telja.
Álit umboðsmanns, sem var veikt og alls ekki í anda Skúla Magnússonar, var líklega einna sísta ástæðan fyrir Bjarna að fara yfir í annað ráðuneyti. En þangað er hann kominn og er það sterk vísbending um að hann hyggist ekki óska eftir endurkjöri.
Óðinn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í heild sinni í Áramótum. Áskrifendur geta nálgast hann í heild hér.