Einkarekstur og opinber rekstur eru oft settir fram sem andstæðir pólar sem geti ekki farið saman, ef þú ert fylgjandi einkarekstri þá ertu á móti opinberum rekstri, en er það raunverulega þannig?

Þessi umræða á ekki einungis við um skóla og heilbrigðismál, þetta á líka við um kaup á þjónustu ráðgjafa, útvistun verkefna s.s. mötuneyti, þrif, öryggisþjónustu og þannig má áfram telja. Þetta færist oft yfir í pólitískar umræður um vinstri og hægri sem er kannski ekki óeðlilegt, enda snúast hinar hefðbundnu átakalínur í pólitíkinni einmitt að verulegu leyti um þennan þátt málsins, en í rauninni eru hér á Íslandi oft óljós mörk þarna á milli þegar rætt er um einkarekstur. Það eru eflaust ekki margir sem eru til í að hafa opinberan rekstur allsráðandi eins og í austantjaldsríkjunum sálugu og að sama skapi eru Íslendingar almennt séð ekki fylgjandi allsherjar einkavæðingu.

Eru Íslendingar á því að við eigum að fara í allsherjar ríkisrekstur, leggja niður endurskoðunarfyrirtækin, verkfræðifyrirtækin, lögfræðifyrirtækin og alla bankana og fara eingöngu í ríkisrekstur eins og umræðan hefur verið um samfélagsbanka með niðurgreidda vexti sem einhver óskilgreindur niðurgreiðir? Nú er bróðurpartur af sjúkraþjálfun einkarekinn sem og tannlækningar ásamt augnlækningum, eigum við að færa þetta allt til ríkisins? Er þetta virkilega það sem fólk vill eða erum við bara með upphrópanir?

Mikilvægt er í þessu sambandi er að taka umræðuna. Þegar rætt er um að ekki sé hægt að nýta þjónustu einkaaðila því sú þjónusta sé of dýr þá gleymist oft að reikna dæmið til enda. Hver er munurinn á kostnaði ríkisstofnunar við það að hafa fólk á launaskrá annars vegar og að bjóða tiltekin afmörkuð verkefni út til einkaaðila hins vegar? Við teljum mikilvægt í þessum samanburði að horfa á málið í heild sinni.

Á ráðstefnu SVÞ 17. mars næstkomandi mun ég fjalla um þessi mál og taka dæmi um nýleg útboð ríkisins og kostnað ríkisins af þeim verkefnum sem þar voru boðin út, í samanburði við raunverulegan kostnað af því að fela starfsmanni í föstu starfi viðkomandi verkefni. Ég tel að það muni margt koma á óvart í þeim samanburði.

Hver er raunverulegur kostnaður við það að ráða starfsmann, þ.e. laun og launatengd gjöld, húsnæðiskostnaður, stjórnunarkostnaður og annar kostnaður? Hver er kostnaður vegna orlofsréttinda, kostnaður vegna uppsagnarfrests og veikindaréttar?

Að okkar mati liggja mörg vannýtt tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í ríkisrekstri í úthýsingu verkefna. Þá mæla sterk rök með því að slíkt dragi töluvert úr ýmsum kostnaði hjá ríkinu, s.s. launa- og rekstrarkostnaði. Með því móti fær hið opinbera greiðan aðgang að aukinni sérfræðiþekkingu sem er góð viðbót við fjölda öflugra ríkisstarfsmanna.

SVÞ er málsvari þjónustufyrirtækja á einkamarkaði enda eru mörg þeirra aðildarfyrirtæki samtakanna. Það er verðugt verkefni að skapa viðhorfsbreytingu í þjóð- félaginu gagnvart úthýsingu verkefna og því hagræði sem í slíku getur falist. Slík viðhorfsbreyting er ekki síst nauðsynleg meðal stjórnmálamanna. Það er nefnilega ótrú- lega algengt, að heyra stjórnmálamenn fjalla um þessi mál undir neikvæðum formerkjum og breytir þar litlu hvaða stjórnmálaskoð- anir menn aðhyllast. Núverandi stjórnvöld settu sér metnaðarfull markmið á þessu sviði í upphafi kjörtímabilsins en hafa verið hikandi í þessu efni sem að sumu leyti er skiljanlegt þegar upphrópanir stjórna umræðunni.

Opinber rekstur og einkarekstur geta farið mjög vel saman við að auka sérþekkingu, fjölbreytileika, bæta skilvirkni auk þess að lækka rekstrarkostnað. Það er því einlæg von mín að þau sjónarmið sem ég mun fjalla um á ráðstefnu SVÞ þann 17. mars næstkomandi kalli fram málefnalega umræðu um málið. Ég veit að flest okkar viljum blandað rekstrarform á fyrirtækjum sem rekin eru með ábyrgum hætti, öflugan opinberan rekstur í bandalagi með öflugum íslenskum einkafyrirtækjum.

Höfundur er formaður stjórnar Samtaka verslunar og þjónustu.