Nýtt neyslurými opnaði á dögunum í Borgartúni en þangað geta vímuefnaneytendur leitað og sprautað sig eða reykt vímuefni undir eftirliti og aðstoð heilbrigðisstarfsfólks.
Rauði kross Íslands stendur fyrir neyslurýminu með samningi við heilbrigðisráðuneyti Willums Þórs Þórssonar sem gildir í eitt ár. Hrafnarnir fagna að sjálfsögðu þessu frábæra framtaki, enda markmiðið að auka öryggi og heilsu fólks sem glímir við fíknisjúkdóm.
Aftur á móti vakti opnunartími neyslurýmisins athygli þeirra en rýmið er opið virka daga frá klukkan tíu til sextán nema á föstudögum lokar klukkan fjórtán. Opnunartíminn er sem sagt aðlagaður að styttri vinnuviku og vinnutíma opinberra starfsmanna.
Það er svo sem ekkert nýtt að hið opinbera aðlagi þjónustu sína að eigin þörfum í stað þjónustuþeganna, en öllu verra þegar verið er að þjónusta fíkla.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.