Íslendingar eru ekki þekktir fyrir metnaðarleysi. Við skörum fram úr á hinum ýmsu sviðum þrátt fyrir fámenni. Stór hluti þjóðarinnar tekur þátt í krefjandi áskorunum á borð við Hengil Ultra, Bakgarðshlaup og járnkarl. Undirrituð hefur ekki gerst svo fræg en hefur þó við og við reimað á sig hlaupaskóna og sett sér hæfilega metnaðarfull markmið í góðum félagsskap. Með þrautseigju og áræðni gæti ég líklega bætt hlaupatímann um 5-10%. Það eru hins vegar fáir sem ætlast til þess að núverandi heimsmethafi í maraþoni, Kelvin Kiptum, bæti sitt met hlutfallslega jafnmikið. Það væri fráleit krafa.
Þetta hefðu stjórnvöld mátt hafa í huga þegar þau undirgengust alþjóðlegar skuldbindingar um hlutfallslegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda án nokkurra fyrirvara. Ísland er í raun Kelvin Kiptum umhverfisvænnar framleiðslu og því hæpið að losun geti minnkað hér hlutfallslega til jafns við önnur ríki.
Losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við verðmætasköpun er nær hvergi minni en hér. Ætla mætti að eftirsóknarvert væri að hér væru framleiddar vörur með umhverfisvænni hætti en annars staðar. Er skynsamlegt út frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að refsa íslenskum fyrirtækjum fyrir það að auka við slíka framleiðslu?
Ef fram fer sem horfir munu íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga sem ljóst mátti vera frá öndverðu að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum.
Það sætir furðu að ekki hafi verið tekið tillit til sérstöðu Íslands þegar markmiðin voru sett. Metnaðurinn mun koma okkur í koll í þetta skiptið. Skynsamlegast væri að breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.
Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.