Á sama tíma og áhyggjur almennings af þróun loftslagsmála fara dvínandi hvert sem litið er, verða yfirlýsingar æðstupresta loftslagskirkjunnar yfirgengilegri.
Stjórnvöld reyna að hraða orkuskiptum meira en framþróun tæknilausna bíður upp á, sem kallar fram mikinn kostnað og óhagræði hjá heimilum og fyrirtækjum.
Nýlegt dæmi af heimavígstöðvunum, þar sem kontóristar og ævintýramenn flýttu sér um of, var gas- og jarðgerðarstöðin GAJA, sem Sorpa þvingaði í gegnum framkvæmda- og innleiðingaferli án þess að forsendur væru til, með þeim afleiðingum sem þekktar eru í dag. Það er þó fullkomið smámál í samengi við það sem nú er reynd að gera á forsendum loftslagsmála. Punkturinn er; það kostar að fara fram úr sér og raunveruleikanum.
Heimilin bera kostnaðinn
Endalausir „grænir skattar“ og gjöld, sem eru á endanum bara hefðbundnir skattar, íþyngja atvinnulífi og kostnaðurinn er að endingu borinn af heimilum landsins.
Í samhengi þess evrópska regluverks sem íslensk stjórnvöld hafa í galskap sínum undirgengist, regluverki sem er sniðið að allt öðrum veruleika en við búum við hér á landi, er kostnaðurinn sem leggst á íslenskt samfélag úr öllu samhengi, sérstaklega þegar horft er á raunverulega stöðu nýtingar endurnýjanlegar orku hér á landi.
Íslensk heimili og fyrirtæki eru fyrir löngu búin að ganga til þeirra verka sem þær þjóðir sem við berum okkur saman við dreymir nú um að ná fram. Núllpunkturinn er rangur hvað okkur varðar enda hlutfall endurnýjanlegrar orku margfalt hærra hér á landi en í samanburðarlöndunum flestum.
Rökin blasa við
En af hverju segi ég að orkuskiptin séu á röngum forsendum?
Ég tel þá forsendu orkuskipta að markmið sé fyrst og fremst árangur í loftslagsmálum vera ranga, sérstaklega í ljósi þess ótrúlega árangurs sem við sem þjóð höfum náð á fyrri stigum, mun nærtækara væri að vinna að markmiðum um orkuskipti á efnahags- og þjóðaröryggislegum forsendum..
Rökin blasa við, auðvitað er skynsamlegt að nýta innlenda orkugjafa þar sem það á við og það er hagkvæmt. Bæði sparar það gjaldeyri og bætir stöðu okkar valdi staða heimsmála því að tregt verði um aðföng eins og olíu og gas.
Samfélagslegur og efnahagslegur kostnaður af því að elta regluverkið frá Brussel, með tilheyrandi loftslagsgjöldum, hvort heldur er á flug, skipasiglingar eða akstur ökutækja, svo eitthvað sé nefnt. Eða þau tækifæri sem glatast þegar fyrirtæki fá ekki orku sem þörf er á vegna afleiddra áhrifa takmarkana á orkuframleiðslu, allt ber þetta að sama brunni; minni hagsæld íslensks samfélags.
Það skiptir líka máli í þessu samhengi að markmiðið sé ekki full orkuskipti, heldur miðum við að því að gera það sem er skynsamlegt, þegar tæknin leyfir. Það verður held ég alltaf skynsamlegt að hafa opið fyrir að brúa toppa með jarðefnaeldsneyti, enda skiptir það sáralitlu í heildarsamhengi hlutanna en gæti sparað umtalsvert hvað fjárfestingar varðar.
Flýtum okkur hægt
Auðnist okkur sem þjóð að taka ákvarðanir af yfirvegun og skynsemi í þessum efnum mun það styðja við efnahagslegan styrk okkar, þjóðaröryggismál færast til betri vegar og auðveldara verður að tryggja öryggisbyrgðir jarðefnaeldsneytis fyrir þá þætti samfélagsins sem þurfa að notast við þá orkugjafa og það sem best er, árangur hvað samdrátt losunar gróðurhúsalofttegundar kemur í kaupbæti.
Flýtum okkur hægt, við erum þrátt fyrir allt best í heimi þegar árangur í notkun endurnýjanlegra orkugjafa er metinn. Losum okkur undan regluverkinu frá Brussel og fetum vegin á okkar forsendum. Forsendum sem taka mið af íslenskum veruleika en ekki veruleika þjóða sem eiga lítið skylt við raunheima á Íslandi.
Höfundur er formaður þingflokks Miðflokksins.