Samkvæmt lögum ber hagsmunasamtökum að skrá sig á þar til gerðan lista stjórnvalda.

Er þetta gert til þess að verjast hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands og ber einstaklingum sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni, skylt að tilkynna forsætisráðuneytinu um sig og hlutverk sitt. Lögaðilum og fyrirtækjum er heimilt að senda tilkynningu um þá einstaklinga sem sinna hagsmunagæslu í umboði þeirra.

Listinn er fyrst og fremst áhugaverður í ljósi þess hvaða samtök líta ekki svo á að þau séu í hagsmunagæslu. Á listanum má til að mynda finna hagsmunasamtökin í Húsi atvinnulífsins og til þess að eyða allri óvissu um hagsmunaárekstra hafa Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, Þroskahjálp og Landsamtök skógareigenda skráð sig á lista hagsmunavarða. Hins vegar vekur athygli að Landvernd, sem eru fyrirferðarmikil hagsmunasamtök, hefur ekki sent inn tilkynningu um hagsmunaverði og á listanum er ekkert verkalýðsfélag að finna.

***

Eigi að síður er Landvernd hagsmunasamtök og býsna öflugt sem slík. Á heimasíðu samtakanna má lesa um tilgang þeirra og markmið. Þar segir: Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi. Þetta starf hefur meðal annars skilað þeim árangri að orkuskortur ríkir í landinu og að öllu óbreyttu munu vandamál af þeim sökum vaxa hratt á næstu árum.

Hafi einhver verið að velkjast vafa um hvort Landvernd séu hagsmunasamtök sem hafa það meðal annars að markmiði að draga úr raforkuframleiðslu á Íslandi ætti sá hinn sami að hlusta á viðtal við Evu Bergþóru Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna, í morgunútvarpi Rásar 2 á föstudag.

Í þessu viðtali afhjúpaði framkvæmdastjórinn sig sem fyrst og fremst gamaldags sósíalista. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem Eva Bergþóra gegndi eitt sinn stöðu framkvæmdastjóra Vinstri grænna. Ákaflega mikill samhljómur virðist vera á milli þessara tveggja hreyfinga að viðtalinu að dæma.

Þannig talaði framkvæmda-stjóri Landverndar fyrir því að einkarekin fyrirtæki sendu fulltrúa á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Dubai. Hún lét eftirfarandi orð falla:
„Ég sé að atvinnulífið sendir rosalega marga líka. Ég held kannski að þessi mikla áhersla á að fyrirtæki og atvinnulífið sjálft leysi þessi mál, að hún sé pínulítið erfið vegna þess að allur loftslagsvandinn er til kominn út af því hvernig, það er atvinnulífið sem hefur skapað mjög mikið af þessum vanda, við mennirnir höfum skapað þennan vanda og ef við ætlum síðan að setja þá sem eru að græða á honum til að leysa hann líka, að þá er einhvern veginn enginn sem vill láta neitt af sínu og það heyrði maður á þessum olíufursta þarna sem er forseti loftslagsráðstefnunnar."

Þetta endurspeglar sérstaka hugsun þar sem atvinnulífið er sett í hlutverk blórabögguls í loftlagsmálum og einhvers konar andskota þeirra sem vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem betur fer nýtur þessi skoðun ekki mikils stuðnings. Flestir telja atvinnulífið gegna lykilhlutverki þegar kemur að orkuskiptum, nýsköpun og leitinni að lausn þeirra vandamála sem stafa af breytingum á loftslagi jarðar.

Hins vegar féll þessi skoðun í frjóan jarðveg hjá spyrlum Morgunútvarpsins – þeim Hafdísi Helgu Helgadóttur og Ingvari Þór Björnssyni. Sú fyrrnefnda spurði Evu Björgu:

Á þessu þingi eru einmitt eins og þú segir: eintómir hagsmunaaðilar að reyna einhvern veginn að halda sínum gróða sem mestum og fleira. Hefur þetta skekkst frá upphaflegu hugmyndinni, þetta er 28. loftslagsþingið, þá einmitt eins og við höfum talað svolítið um, það hefur verið sagt núna í einhver ár: Þetta er síðasta tækifæri okkar til að ná einhvers konar almennilegu samkomulagi. Samt virðist það aldrei nást. Er þetta frekar orðið þing fyrir svona lobbýisma einhvers konar?

***

Svo barst talið að Íslandi og var framkvæmdastjórinn spurður út í stöðu mála hér á landi þegar kemur að umhverfismálum. Eva Björg svaraði því:

Það er hugveita sem heitir Hellnasker, það var grein í Vísi í gær þar sem var nú einmitt sýnt fram á að við erum ekki að gera nóg og að íslensk fyrirtæki eru að auka losun flestöll. Svo er nú fyrirtæki sem gefur ekki upp sína losun, það er Samherji, en svona megnið af fyrirtækjunum hefur meira gefið upp losun og er ekki að minnka hana. Það er bara þannig. Og flugið er náttúrulega að aukast rosalega mikið, einna mest, og það er bara eins og þrjú hundruð þúsund nýir jarðefnabílar hefðu bæst í flotann, bara í fluginu. Svo var ég í þinginu um daginn þar sem kom fram að rafbílavæðingin, svo mikil lausn sem hún er í tali fólks, stjórnvalda og annarra, og meiri orka líka, þá er það samt ekki þannig út af því að öðrum bílum fækkar ekkert sérstaklega, þetta er bara viðbót og þá leysir þetta ekki neitt. Þannig að það þarf minna af öllu og svo þarf meiri jöfnuð og frekar heldur en meiri framleiðslu og meira af öllum.“

Svo mörg voru þau orð. Lausn Landverndar felst í að færa lífskjör hér á landi áratugi aftur í tímann og taka upp sósíalíska miðstýringu á framleiðsluþáttum til að ná fram markmiðum Landverndar. Það er ekki að furða að spyrillinn endaði viðtalið með að segja: „Manni fallast eiginlega bara hendur. Við höfum ekki mikinn tíma en er einhver von þarna fyrir okkur?“

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa heildsinni í blaðinu sem kom út 6. desember 2023.