Einn helsti hugsuður Íslendinga á sviði efnahagsmála – Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins – fagnaði sigri í baráttunni við verðbólguna í síðustu viku.
Frelsisblys á borð við Lilju Alfreðsdóttir ráðherra rafrænna skilríkja og Íslenska dansflokksins og Katrínu Ólafsdóttir tóku í sama streng og tölu ólíklegt að Seðlabankinn myndi hækka vexti í ágúst. Sérfræðingar Landsbankans voru á sama máli.
***
Ágúst Bjarni, sem einnig er varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í samtali við Morgunblaðið að verðbólgumælingin í júlí væri til marks um aðgerðir stjórnvalda væru að skila árangri og engin þörf væri á frekari hækkun vaxta. Hverjar voru aðgerðirnar? Þær voru að spara einungis 36 milljarða í ríkisrekstrinum sem er þriðjungur þeirra upphæðar sem Alþingi hækkaði útgjöld ríkissjóðs um þegar það hafði fjárlög þessa árs til umfjöllunar. Sparnaðurinn felst fyrst og fremst í frestun framkvæmda til næsta árs.
Týr veltir fyrir sér hvað Milton gamli Friedman myndi segja við þessari speki Ágústs um að það dugi fyrir ríkissjóð sem er rekinn með þrálátum halla að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum til þess að ná niður verðbólgu. En sennilega vill hann ekki vita hvað Milton hefði um málið að segja.
***
Týr skilur annars ekki hvers vegna Ágúst og fleiri geri sér í hugarlund að ekkert geti nú réttlætt frekari stýrivaxtahækkanir Seðlabankans. Stýrivaxtaákvarðanir eru ekki teknar út frá verðbólgumælingum Hagstofunnar. Stýrivextir eru hækkaðir til þess að hafa áhrif á verðbólguvæntingar. Þrátt fyrir að útsölur í júlí og hægagangur á fasteignamarkaði hafi leitt til lækkunar mældrar verðbólgu hafa verðbólguvæntingar á markaði ekkert breyst.
Þær munu vart breytast fyrr en stjórnvöld sýna festu og draga verulega úr útgjöldum til þess að spyrna við verðbólgu og merki sjást um að gerðir verði ábyrgir kjarasamningar á vinnumarkaði í haust. Týr ætlar ekki að veðja á að það gerist