Þann 24. apríl 2024 kynnti Samfylkingin nýja og afgerandi stefnu í orkumálum.
Stefnan felur í sér áréttingu á ákveðnum meginsjónarmiðum um jafnvægi milli orkunýtingar og náttúruverndar sem fylgdu flokknum frá stofnun.
Í stefnuplagginu, sem ber yfirskriftina Krafa um árangur, lögðum við áherslu á að:
- Ný ríkisstjórn legði fram töluleg fram markmið um raforkuöflun sem byggt yrði á í ferli rammaáætlunar þannig að tryggt yrði að virkjunarkostir í orkunýtingarflokki gætu staðið undir settum markmiðum.
- Komið yrði upp einu samræmdu leyfisveitingaferli í stafrænni gagnagátt hjá nýrri Umhverfis- og orkustofnun sem yrði leiðandi í ferlinu (one-stop-shop).
- Stjórnsýsla umhverfis- og orkumála yrði styrkt og tímafrestir lögbundnir.
- Verkefni í orkunýtingarflokki rammaáætlunar fengju forgangsmeðferð hjá Umhverfis- og orkustofnun.
- Nærsamfélaginu yrði tryggð aukin hlutdeild í tekjum af orkuframleiðslu eða orkumannvirkjum.
- Stigin yrðu stærri skref til jöfnunar á dreifikostnaði raforku um allt land.
- Settur yrði aukinn kraftur í leit og nýtingu jarðhita til húshitunar.
Í dag er allt þetta hluti af þeirri stefnu sem ríkisstjórn Íslands undir forystu Kristrúnar Frostadóttur vinnur eftir.
Regluverkið einfaldað
Á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar hef ég lagt fram og mælt fyrir frumvörpum sem taka bæði til lagaumgjörðar rammaáætlunar og almennra leyfisferla og eru til þess fallin að liðka fyrir þjóðhagslega mikilvægum verkefnum.
Lagabreytingarnar fela meðal annars í sér að Umhverfis- og orkustofnun fær víðtækar heimildir til þess að sameina afgreiðslu mismunandi leyfa í eina leyfisveitingu, bæði leyfi og heimildir sem heyra undir valdsvið stofnunarinnar sjálfrar og sem falla undir valdsvið annarra stjórnvalda. Þá munu virkjunarframkvæmdir sem raðað hefur verið í orkunýtingarflokk rammaáætlunar njóta sérstakrar forgangsmeðferðar hjá stofnuninni.
Komið verður á aukinni festu við framkvæmd rammaáætlunar, meðal annars með föstum tímafrestum. Lögbundin verður sú regla að stjórnvöld setji sér stefnu um raforkuöflun til tíu ára með tölulegum markmiðum og að horft verði til þeirrar stefnu í ferli rammaáætlunar og við röðun virkjunarkosta.
Þetta er bara byrjunin, fyrstu skrefin sem tekin eru í mínu ráðuneyti á nýju kjörtímabili í átt að einföldun regluverks, aukinni skilvirkni og styttri afgreiðslutíma í stjórnsýslu orkumála.
Byggðafesta og tekjur til nærsamfélags
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur leggur áherslu á byggðajöfnuð, að jafna aðstöðumun fólks og fyrirtækja og treysta stoðir hinna dreifðu byggða.
Í innviðaráðuneytinu er unnið að frumvarpi um skattlagningu orkumannvirkja. Birt hefur verið áformaskjal á samráðsgátt sem mun vonandi skapa grunn að góðu samtali milli stjórnvalda, sveitarfélaga og orkufyrirtækja um hvaða útfærsla sé heillavænlegust. Um er að ræða bæði réttlætismál og lið í því að höggva á hnúta og liðka fyrir framkvæmdum.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram breytingar sem fela í sér aukna jöfnun á dreifikostnaði raforku strax á yfirstandandi ári. Frá og með 1. júlí næstkomandi mun þannig raforkukostnaður í dreifbýli lækka um 22%, heimilum og fyrirtækjum til heilla. Stigin verða enn stærri skref í þessum efnum með frekari breytingum á lögum um jöfnuð kostnaðar við dreifingu raforku næsta haust.
Sú stétt sem orðið hefur einna harðast úti vegna hækkunar raforkuverðs á undanförnum eru garðyrkjubændur. Almennt heyrir landbúnaðarstuðningur undir atvinnuvegaráðuneytið, en í þágu aukinnar orkunýtni og orkusparnaðar hef ég, með reglugerðarbreytingu og fyrirmælum til Loftslags- og orkusjóðs, látið auglýsa sérstaka styrki í þágu garðyrkjubænda til fjárfestingar í orkusparandi tækni, LED-ljósum, tölvu- og stýribúnaði og gardínukerfum. Áhersla verður lögð á verkefni sem auka rekstrarhagkvæmni gróðurhúsa og sem styðja við tæknivæðingu og samkeppnishæfni greinarinnar.
Jarðhiti jafnar leikinn
Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin sett af stað stærsta almenna átakið í leit og nýtingu jarðhita sem ráðist hefur verið í á þessari öld. Á árunum 2025 til 2028 ætlum við að verja milljarði króna í styrki til leitar og nýtingar jarðhita á svæðum þar sem nú er notast við raforku og olíu til húshitunar.
Reynslan af síðasta jarðhitaátaki sýnir að til mikils er að vinna. Ég er sannfærður um að þetta sé ábatasöm fjárfesting og skynsamleg nýting á almannafé. Með árangri í leit og nýtingu jarðhita munum við lækka húshitunarkostnað heimila en jafnframt létta kostnaði af fyrirtækjum, sveitarfélögum og grunnþjónustu á köldum og krefjandi svæðum. Þetta er grundvallaratriði fyrir verðmætasköpun og byggðaþróun í landinu og jafnaðarmennska eins og hún gerist best.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur einbeittan vilja til verklegra framkvæmda. Þetta hefur þegar endurspeglast í okkar störfum og mun endurspeglast í lagasetningu, stefnumótun og stjórnvaldsaðgerðum á næstu árum.
Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Greinin birtist í sérblaðinu Samorkuþing 2025.