Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, fékk íslenskuunnendur til að reyta hár sitt og skegg með minningarorðum sínum um Frans páfa.
Í minningarorðum sem Halla birti á samfélagsmiðlum kallaði hún páfann „Pope Francis“ í stað þess að nota íslenskt heiti hans. Þetta vakti litla kátínu fyrirmenna á borð við Eirík Rögnvaldsson, Illuga Jökulsson og Egil Helgason.
Þó að hrafnarnir láti sig hin ýmsu málefni varða ákváðu þeir að skila auðu í þessu mikilvæga þrætumáli en bíða spenntir eftir að Halla segi frá samskiptum sínum við President Trump og kannski general secretary Xi Jinping ef svo ber undir.
Þessi enskusletta forsetans minnti hrafnana þó óneitanlega á hinn dæmigerða íslenska landnámsmann sem djúpt er grafinn í þjóðarsálina. Íslendingurinn, sem á ferðalögum erlendis kennir helstu verslunargötur borga og bæja á áfangastað við Laugaveginn, borðar aðeins á Olive Garden og The Cheesecake Factory í árlegum verslunarferðum sínum til Boston og upplýsir vini sína á Facebook um hvað „allt sé miklu ódýrara hér en heima“.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.