Fyrir næstum tveimur vikum, þann 20. mars, fjallaði Óðinn um kaup Landsbankans á Tryggingamiðstöðinni - TM.

Þar gagnrýndi Óðinn fjármálaráðherra fyrir að bregðast ekki við af festu í málefnum Landsbankans og benti á að sjálfstæðismenn hlytu að velta fyrir sér hvort ráðherrann væri heppilegur arftaki Bjarna Benediktssonar þegar hann lætur af embætti formanns Sjálfstæðisflokksins.

Sama dag og gagnrýni Óðins kom fram flutti fjármálaráðherrann skýrslu um kaup bankans á Alþingi. Þar sór ráðherrann af sér alla ábyrgð í málinu og sagði meðal annars.

Herra forseti. Í tilkynningu í fjölmiðlum á sunnudaginn var tilkynnt um að stjórn Kviku hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á hlutafé í TM tryggingum hf. fyrir tæpa 29 milljarða og að Landsbankinn myndi greiða fyrir hlutaféð með reiðufé.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði að Landsbankinn hefði ákveðið að leggja fram skuldbindandi tilboð í tryggingafélagið. Allar vangaveltur um að ég hafi mátt vita, lesið í orðróm eða sofið á verðinum eru tilraun til að draga athygli frá kjarna máls.

Í andsvari benti benti Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkiningarinnar ráðherra á að sérstakt ákvæði væri í lögum um Bankasýsluna þar sem ráðherra gæti beint tilmælum til stofnunarinnar.

Ráðherra er vörslumaður ríkiseigna, gæslumaður almannafjár, og ráðherra ber ábyrgð á því að meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sé ekki aðeins í samræmi við lög heldur einnig í samræmi við eigendastefnu ríkisins sem hæstv. ráðherra talaði hér um. Þetta er kjarni málsins í þessari umræðu. Ráðherra hefur líka sérstaka heimild samkvæmt lögum um Bankasýsluna til þess að beina tilmælum til stofnunarinnar vegna einstakra mála.

Þessa heimild er að finna í 2. gr. laganna um bankasýsluna.

Ákveði [ráðherra] 1) í undantekningartilvikum að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál getur stjórnin tjáð ráðherra afstöðu sína til þeirra áður en við þeim er orðið. [Efnahags- og viðskiptanefnd] 2) Alþingis skal gerð grein fyrir tilmælum ráðherra og afstöðu stjórnarinnar til þeirra eins fljótt og auðið er.

Ráðherrann svaraði þessari athugasemd þingmannsins á þessa leið.

Forseti. Fyrst til að nefna það þá veit ég ekki til þess að þessari heimild um að beina tilmælum með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir hafi nokkru sinni verið beitt, en sannarlega er heimild til þess að gera það.

Í mínum huga er hér verið að snúa hlutum á hvolf. Það er bankaráð sem hefur skýra skyldu til að upplýsa Bankasýsluna, bæði með vísan í almennar reglur, eigendastefnu og sérstakan samning þar á milli. Þar af leiðandi er ljóst að bankaráð átti að upplýsa Bankasýslu um það sem þarna var á ferðinni.

Það að ég hafi heyrt orðróm um það, eins og margir aðrir, að Landsbankinn hefði áhuga á því að gera tilboð í félagið þá er þar um að ræða orðróm sem átti við um önnur félög líka. Og þegar slíkur orðrómur er á kreiki gera fyrirtæki og markaðurinn ekki formlega athugasemd við það.

Óðinn er þeirrar skoðunnar að skýringar ráðherrans haldi ekki vatni. Það er öllum ljóst, og vonandi ráðherranum líka, að hann vissi af því að líkur voru á fyrirhuguðum kaupum Landsbankans á TM. Þar með þurfti ráðherrann að aðhafast.

Auðvitað getur ráðherra ekki skipt sér af einstökum málefnum Landsbankans - hverjum bankinn lánar og á hvaða kjörum, hver vaxtastefna bankans sé eða hvernig er unnið úr skuldastöðu einstakra viðskiptavina. Enginn, nema ef ske kynni framsóknarmenn, vilja slík afskipti.

En ráðherranum ber skylda til að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar og eigendastefnu ríkisins í málefnum Landsbankans.

Svo vill svo til að stefna ríkisstjórnarinnar fer saman við stefnu flokks ráðherrans í bankamálum. Hann var því ekki aðeins að bregðast samstarfsflokkunum í ríkisstjórn heldur kjósendum Sjálfstæðisflokksins.

Ráherrann hafði margar leiðir til að bregðast við.

Ein er sú að skipta út stjórn Bankasýslunnar ef hún vinnur ekki sitt verk. Önnur er að beina tilmælum til Bankasýslunnar, eins og bent var á hér að ofan.

Sú þriðja er sú sem ráðherrann valdi, að tala um málið á opinberum vettvangi. En þá skiptir máli hvernig ráðherrann tjáir sig og hvort einhver tekur mark á.

Hér á eftir er pistill Óðins frá 20. mars.

Ríkisvæðing atvinnulífsins og ráðherrann sem enginn tók mark á

Ríkisbankinn Landsbankinn hefur keypt tryggingafélagið TM. Kaupverðið er 28,6 milljarðar króna. Þetta er ein stærsta ríkisvæðing á Íslandi síðan ríkið tók yfir rekstur Landsbankans. Eigið fé Landsbankans var um síðustu áramót 303 milljarðar króna. Kaupverðið er því um 9,4% af eigin fé bankans þá en ætla má að það hafi eitthvað vaxið fyrstu þrjá mánuði þessa árs.

Þessi ákvörðun er stjórnar Landsbankans fer þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar um eignarhald í fjármálakerfinu. Í stjórnarsáttmálanum segir:

Stjórnvöld munu halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða.

Samkvæmt upplýsingum Óðins er ekki fyrirvari um samþykki hluthafafundar, eins og stundum er í svo stórum kaupum. Því er það svo að sjö stjórnarmenn í Landsbankanum tóku ákvörðun um að auka ríkisrekstur í landinu og fara gegn stefnu ríkisstjórnar sem nýtur stuðnings meirihluta kjörins Alþingis.

***

Marklaust plagg

Þessum sjö stjórnarmönnum Landsbankans, sem allir hljóta að víkja sæti eigi síðar en í dag, er þó vorkunn. Af hverju ósköpunum ættu þeir að taka mark á þessum stjórnarsáttmála þegar ríkisstjórnin sjálf gerir það ekki.

Óðinn tekur hér eitt dæmi úr stjórnarsáttmálanum:

Vöxtur og velsæld er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Styrkur ríkisfjármála verður byggður upp á ný á grundvelli öflugs atvinnulífs og áhersla lögð á framúrskarandi umhverfi til verðmætasköpunar þar sem til verða ný, fjölbreytt og verðmæt störf. Samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verður undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðugleika í verðlagi og vöxtum.

Styrkur ríkissjóðs hefur minnkað allt frá árinu 2019 þegar hallarekstur ríkisins hófst. Þessi ríkisstjórn hefur veikt stöðu ríkissjóðs með því að taka lífskjör að láni um 536,7 milljarðar króna gangi fjárlög síðasta og þessa árs eftir. Núvirt er hallinn 615 milljarðar.

Ríkisstjórninni til varnar eru „aðeins“ 231 milljarða hallarekstur frá því stjórnarsáttmálinn var samþykktur og núverandi ríkisstjórn framlengdi líf sitt. Þó vissulega sé hún lifandi dauð.

***

Kakan borðuð

Þessi hallarekstur hefur valdið mesta verðbólgubáli sem við höfum þekkt síðan 2009, þegar heimurinn fór á hausinn. En í þetta skiptið var þetta heimatilbúið vandamál.

Enn bæta stjórnvöld í. Þau setja 80 milljarða króna í kjarasamninga á almennum markaði næstu fjögur árin. Peninga sem verður að taka að láni og munu því valda verðbólgu.

Meðal þeirra dellumála sem peningunum er sturtað í eru ókeypis skólamáltíðir. Enginn í veröldinni hafði hugmyndaflug í þetta nema Líf Magneudóttir sem missti þetta svo út úr sér.

***

Milljarðarnir áttatíu voru varla foknir út um gluggann þegar Lilja Alfreðsdóttir, sem er ólíklegri að komast aftur á þing í næstu kosningum en Ólafur Thors, segir að hækka þurfi listamannalaun.

Lilja hefur þarna val um að borða kökuna eða eiga hana. Í þessu tilfelli skulda aðeins minna í kökunni. En alltaf er það sama sagan. Alltaf skal Lilja borða kökuna.

Og til stóð að trúnaðarmaður Lilju, Jón Þ. Sigurgeirsson, yrði gerður að stjórnarformanni. Finnst Framsóknarflokknum hann ekki hafa nægilega mikil ítök í bankakerfinu?

Og hvar er Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Jú, jú, á ferðalagi, alveg eins og Óðinn hafði spáð að hann myndi eyða síðustu dögum sínum í stjórnmálum. Hann er í sólarlandaferð á Indlandi í boði íslenskra skattgreiðenda. Hann tekur nú ekki einu sinni upp símann vegna svona smámáls.

***

Galin ákvörðun

Óðinn afsakar þennan útúrdúr. En þarna hafa stjórnarmennirnir sjö gildar ástæður til að velta ekki fyrir sér þessu marklausa plaggi sem þessi stjórnarsáttmáli er.

Það breytir hins vegur engu um það, að kaup Landsbankans er galin ákvörðun. Í fyrsta lagi hefur sagan kennt okkur að tryggingarstarfsemi og bankastarfsemi eiga ekki endilega vel saman. Nýjasta sagan er Kvika, sem er að selja TM vegna þess að stjórnendur telja bankann undirverðlagðann og samlegð ekki næg.

Í öðru lagi er ríkið slæmur eigandi og slæmur rekandi. Ríkið á ekki að reka fyrirtæki heldur setja þeim eðlilegar leikreglur sem eru skýrar og jafnar.

Í þriðja lagi skuldar ríkið verulega fjármuni og því miklu nær að nota allt eigið féð í fyrirtækjum í eigu ríkisins til að lækka skuldir. Og auðvitað um leið að hætta hallarekstrinum.

***

Hlustaði enginn á Þórdísi Kolbrúnu

Óðinn fullyrðir að þetta hefði aldrei gerst ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki forystulaus. Það tók enginn sérstakt mark á því þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra sagðist í samtali við Þjóðmál vera andsnúin kaupum Landsbankans á TM. Ekki bankastjórinn, ekki bankastjórnin og ekki bankasýslan.

Ef Þórdís væri varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eins svo þeir voru í eina tíð, þá hefði Bankasýslan farið í að stöðva fyrirhuguð kaup. En það var bara eins hún hafi talað í tómið.

Heldur raunverulega einhver enn að þessi ágæta Þórdís Kolbrún ráði við það að vera formaður Sjálfstæðisflokksins og koma honum úr þessum 18-20% sem flokkurinn er fastur í?

***

Að endingu skulum við vitna í Davíð Oddsson í Reykjavíkurbréfi, 16. júní 2019. Þar er ekki töluð vitleysan:

Það var lengi óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja að sá sem næstur stæði formanninum hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu ef örlög eða atvik höguðu því svo að fylla þyrfti skarðið yrðu góð tök á því.

Aðrir flokkar höfðu á hinn bóginn ýmsan hátt á slíku. Stundum voru helstu valdamenn þeirra flokka ekki í leiðtogarullu, heldur t.d. ungur og ágætur flokksbróðir eða -systir sem sat þar með táknrænum hætti og fór að auki vel á mynd, þótt opinbert leyndarmál væri að aðrir færu með flokksumboðið og völdin sem því fylgdu. Þetta var t.d. þekkt bæði hjá Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki og reyndar fleirum.

Hjá Sjálfstæðisflokki horfðu menn öruggir á Jón Þorláksson og við hlið hans Magnús Guðmundsson og Ólafur Thors, sem varð svo næstur honum. Heilsa Jóns bilaði og Ólafur hélt um flokksstýrið lengi með þeim glæsibrag að gneistar frá í minningunni. Einstæðir forystuhæfileikar, leiftrandi glaðbeittur baráttuvilji, bítandi gamansemi, sem Ólafi lánaðist oftast að stilla í hóf, svo að ekki sveið lengur undan en þurfti.

Þeir Jón Þorláksson og Ólafur vissu að baráttan á þeirri tíð var upp á pólitískt líf eða dauða. Hún skipti öllu fyrir flokkinn þeirra, en ekki sjálfs hans vegna heldur vegna þess að það var enginn annar á sviðinu eða nálægur sem tók svari þeirrar lífsskoðunar sem flokkurinn setti í öndvegi og best hefur dugað síðan. Flokkurinn hafði löngum sterkt fylgi með fólkinu en var meinað um áhrif í samræmi við þann stuðning vegna möndls við vægi atkvæða. Það hefur gjörbreyst. Hið íslenska samfélag var brothætt og stór hluti verkalýðshreyfingarinnar í höndum manna sem áttu samleið með öfgaöflum alræðissinna. Þeirra söngvar voru sungnir þegar mest þótti liggja við.

Ólafur hafði næsta sér menn á borð við þá Pétur Magnússon varaformann sinn, dr. Bjarna Benediktsson, sem var stórmerkur maður, þó allt önnur gerð en Ólafur og bættu þeir hvor annan upp með einstæðum hætti. Skammt undan voru svo Gunnar Thoroddsen, Jóhann Hafstein, María Maack, Magnús frá Mel og Geir Hallgrímsson, svo nokkrir öndvegismenn séu nefndir. Þótt forystuliðið væri gott var það liðsheildin og baráttuvilji félaganna sem úrslitum réði. Sjálfstæði var tilvísunin og ekki fengin frá auglýsingastofum eins og nú tíðkast. Stjórnarsáttmálar voru samdir af leiðtogunum sjálfum með yfirlegu og samráði en ekki af pólitísku aðstoðarfólki á meðan aðrir átu vöfflur.