Fæstir verða í raun varir við skattlagningu eldsneytis. Eldsneytisskattar eru hluti kaupverðs eldsneytis, þeir hverfa inn í útsöluverðið. Innflytjendur eldsneytis eru ekki margir og upphaflegir skattgreiðendur því fáir, líkst til fjórir eða fimm, og álagningin byggist fyrst og fremst á upplýsingagjöf í tollskýrslu innflytjenda sem hvort eð er þarf að skila. Skattlagningin er því skilvirk og laus við flækjur.

Skattlagning eldsneytis hefur um langa hríð þótt sanngjörn. Þeir sem aka eldsneytisgrönnum bílum leggja þegar upp er staðið minna til skatttekna en þeir sem aka á eldsneytisfrekum bílum. Þungir bílar eyða að jafnaði mun meira en þeir léttari og því leggja eigendur þungu bílanna, þegar upp er staðið, meira til þegar að tekjum skattlagningarinnar kemur. Frá árunum eftir hrunið hefur Alþingi bætt í skattlagninguna, tekið upp svokallað kolefnisgjald, til að mæta loftslagssjónarmiðum.

Einfalt, skilvirkt og sanngjarnt kerfi sem inniheldur hvata sem taka mið af neikvæðum ytri áhrifum.

Nú bregður svo við að ráðherra telur skattlagninguna ekki lengur sanngjarna. Hann sagði tekjurnar ekki nægilega miklar og auk þess leggi eigendur eyðslugrannra bíla ekki nógu mikið til. Þar að auki telur hann eigendur vöruflutningabíla þurfa að greiða meira.

Er aðferðin einföld?

Í dag greiða eigendur rafmagns- og tengitvinnbíla ígildi eldsneytisskatta í formi kílómetragjalds en fjárhæð þess endurspeglar skatttekjur sem ríkið fær fyrir eldsneytisskatta af meðalbíl sem gengur fyrir bensíni eða dísilolíu. Frá árinu 2005 hafa eigendur vörubifreiða og eftirvagna til viðbótar eldsneytisgjöldum greitt kílómetragjald af notkun slíkra tækja. Í tilviki eftirvagnana eru þeir annað hvort með innbyggðan kílómetramæli eða kílómetrastaða bílanna er látin gilda líka fyrir vagnana. Lesið er af tvisvar á ári.

Til þessa virðist ráðherra hafa horft þegar hann ákvað að það væri skynsamlegt að fella stærstan hluta eldsneytisskattlagningar brott og taka alfarið upp kílómetragjald á alla bíla. Eigendur rafmagnsbíla þekkja að það er ekki flókið að telja fram kílómetrana. Flestir eiga einn til tvo bíla og kílómetrastaða þeirra er skráð endrum og sinnum. Hver skráning hefur að vísu í för með sér móttöku nokkurra tilkynninga og gagna. En ímyndum okkur hvernig staðan væri hjá þeim sem ætti hundruð bíla, hann mundi líklegast fljótlega drukkna. En einstaklingar eiga ekki svo marga bíla og því reddast þetta allt.

En bíðum nú við. Rekstraraðilar vöruflutningabíla eiga jafnan mjög marga bíla og jafnvel enn fleiri eftirvagna. Þeir eru með marga bílstjóra í vinnu sem aka bílunum og vögnunum víða um landið.

Kappið ber skilvirknina ofurliði

Í þessu endurspeglast óskilvirkni nýja kerfisins. Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum. Upphaflega var gert ráð fyrir því að sama fyrirkomulag yrði á framtali vegna eftirvagna og áður. Nú er hins vegar einnig allt útlit fyrir að til þess verði ætlast að skrá þurfi kílómetrastöðu hvers bíls þegar eftirvagn er hengdur aftan í hann og aftur þegar hann er losaður frá. Í tilviki sumra bíla á slík aðgerð sér stað átta til níu sinnum á dag. Þetta hljómar ekki lengur svo einfalt og skilvirkt er það?

Kílómetragjald sem hefur verið lagt á vörubíla og eftirvagna var hannað til álesturs tvisvar á ári. Svipaða sögu mætti segja um kílómetragjald á rafbíla og tengiltvinnbíla. Með því móti var enn unnt að halda því fram að skilvirkni skatttökunnar væri enn til staðar.

Ef fram fer sem horfir mun stórum hluta vinnutíma fjölmargra vörubílstjóra verða eytt í skráningu kílómetra. Skilvirknin er horfin enda hafa vörubílstjórar í raun verið gerðir að ígildi starfsmanna Skattsins. Hinir fáu greiðendur skattteknanna eru farnir að skipta hundruðum með tilheyrandi álagi á Skattinn sem mun þurfa meira fé. Og fyrir þetta munum við öll greiða, ekki bara í skatt heldur með kostnaði sem verður innifalinn í því verði sem við greiðum fyrir flutninga.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.